Fellur úrkomumetið í Reykjavík?

Reykvíkingar og gestir þeirra hafa ósjaldan þurft að bregða regnhlífum …
Reykvíkingar og gestir þeirra hafa ósjaldan þurft að bregða regnhlífum á loft á þessu ári. Hvað gerist á seinni hluta ársins? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvenju úrkomusamt hefur verið í Reykjavík það sem af er árinu 2022. Þetta kemur fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar fyrir nýliðinn júlí. Úrkoma í Reykjavík mældist 72,6 millimetrar í mánuðinum, sem er 45% umfram meðallag.

Heildarúrkoma fyrstu sjö mánuði ársins var 719,5 millimetrar, sem er 55% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Heildarúrkoma hefur aðeins einu sinni mælst meiri í Reykjavík yfir þessa sjö mánuði en nú, en það var árið 1921 þegar heildarúrkoman var 760,4 mm. Á Akureyri hefur heildarúrkoma mánaðanna sjö mælst 316,2 mm sem er 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Með í „úrkomusamkeppninni“

Árið 2022 er enn með í „úrkomusamkeppninni“ í Reykjavík. Fyrstu sjö mánuðirnir eru þeir næstúrkomusömustu frá upphafi samfelldra mælinga 1920. Þetta kemur fram á Hungurdiskum, Moggabloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings.

„Það er 1921 sem er úrkomumesta ár sem við vitum um í Reykjavík – hreinsaði af sér alla keppinauta og fór í 1291,1 millimetra,“ segir Trausti. Mjög mikið rigndi síðari hluta árs árið 2007, nægilega mikið til að koma því ári í annað sæti, 1125,4 mm, en samt langt á eftir 1921. Verði úrkoma í Reykjavík síðustu fimm mánuði ársins í meðallagi verður árið það úrkomusamasta á öldinni (fer rétt fram úr 2007), en haldi úrkoman áfram að vera að jafnaði 60 prósent umfram meðallag yrði metið frá 1921 slegið, segir Trausti. Mesta úrkoma sem vitað er um síðustu fimm mánuði ársins í Reykjavík er 744,1 millimetri. Það var árið 2007. Árið 2016 er í öðru sæti, langt á eftir, með 573,7 mm. Síðustu fimm mánuðir ársins voru þurrastir árið 1960, úrkoma þá mældist aðeins 196,8 mm.

„Ómögulegt er um að segja hvernig þessi keppni endar nú, en mörgum mun nú finnast að vestanáttarsyrpan sem staðið hefur linnulítið frá áramótum (og reyndar í september og nóvember á síðasta ári líka) hljóti að fara að linast – en svona syrpur hafa raunar oft orðið enn lengri,“ segir Trausti í lok pistils síns.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 147,4 í júlí sem er 35,8 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 165,3, sem er 12,8 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Staðan var önnur í júní síðastliðnum. Þann mánuð mældust sólskinsstundir í Reykjavík 201,2, sem er 11,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar vel undir meðallagi, eða 148,1, sem er 41,8 stundum undir meðallagi.

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: