Geta troðið skýrslunum „beint í tætarann“

Sólveig Anna Jónsdóttir er vægast sagt óánægð með skýrsluna.
Sólveig Anna Jónsdóttir er vægast sagt óánægð með skýrsluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Laun eru ekki ölmusa yfirstéttarinnar til þeirra sem vinna vinnuna, svo að þau geti skrimt.“ Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar, um nýbirta skýrslu Katrínar Ólafsdóttur, dósents í hagfræði, þar sem sagt var að lítið sem ekkert svigrúm væri til launahækkana í komandi kjaraviðræðum. Hún hafnar niðurstöðum funda Þjóðhagsráðs og segir að ráðið geti troðið skýrslunni „beint í tætarann“.

„Verkafólk, þau sem skapa arðinn og halda umönnunarkerfum okkar uppi með vinnu sinni EIGA einfaldlega inni sinn skerf af hagvextinum og það eru þeirra lýðræðislegu réttindi að ákveða hvað þau vilja og þurfa. Það er ekki valdastéttarinnar að ákveða á lokuðum fundum. Við búum ekki í lénsveldi og erum ekki í ánauð, við erum frjálst fullorðiðfólk og við látum ekki koma fram við okkur eins og vesalinga,“ skrifar Sólveig Anna á Facebook.

Hún segir vinnu verkafólks grundvöll verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins og að hún skapi auðinn „sem yfirstétt landsins hefur í miklum móð á síðustu árum graðkað til sín í formi skattaafsláttar vegna hlutabréfabrasks, yfirtöku á húsnæðismarkaðnum, skattaundanskota og yfirgengilegra ofurlauna.“

Laun forsætisráðherra hafi hækkað um rúma milljón

Bendir Sólveig Anna á að laun forsætisráðherra hafi hækkað um rúma milljón á síðustu sex árum og að forseti Íslands þiggi rúmar þrjár milljónir í laun á mánuði.

„Að fólk sem veit ekkert um líf vinnandi fólks og lífsskilyrði, sem hefur svo lítinn áhuga á það nennir ekki einu sinni að spyrja skuli telja sig þess umkomið að reyna að kæfa baráttu okkur fyrir efnahagslegu réttlæti er satt best að segja ógeðslegt, ólýðræðislegt og að öllu leiti óþolandi.“

Enginn fulltrúi láglaunafólks á fundunum, telur Sólveig

Katrín var af Þjóðhagsráði fengin til að vinna greinargerð um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga. Sólveig segist hafa beðið forseta ASÍ um fundargerðir af fundum Þjóðhagsráðs en Sólveigu var tjáð, að hennar sögn, að engar fundargerðir væru ritaðar.

„Mér hefur ekki verið boðið að sitja þessa fundi og eftir því sem ég best veit er enginn fulltrúi verkafólk og láglaunafólks viðstaddur. Það kemur reyndar ekki á óvart og er í takt við algjöran og samstilltan vilja þeirra sem telja sig þess umkomin að stjórna öllu til að jaðarsetja vinnuaflið hvar og hvenær sem er. Enda er enginn sannleikur sannari á Íslandi í dag en sá að sérfræðingaveldi meritókrasíunnar skal hafa vit fyrir vinnuaflinu,“ segir Sólveig.

Hún lýkur pistli sínum á: „Ég hafna niðurstöðu hinna fjölmörgu funda Þjóðhagsráðs. Þetta fólk getur tekið þessar skýrslur sínar og troðið þeim beint í tætarann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert