Hátt í fimm þúsund sóttu gosstöðvarnar í gær

Samkvæmt teljara Ferðamálastofu fóru 4666 að gosstöðvunum í gær.
Samkvæmt teljara Ferðamálastofu fóru 4666 að gosstöðvunum í gær. mbl.is/Sigurður Bogi

Margmenni var við gosstöðvarnar í Meradölum í gær og fram á nótt en samkvæmt talningu Ferðamálastofu sóttu 4.666 eldgosið síðasta sólarhring. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.

Þar segir einnig að flestir göngugarparnir hafi farið upp leið A sem er sú leið sem viðbragðsaðilar hafa mælt með og beint fólki inn á.

Fram hefur komið í umfjöllunum mbl.is að ekki sé spáð hinu besta veðri um helgina fyrir þá sem vilja leggja sér leið upp að gosi. Búið er að spá hvassviðri og rigningu á morgun. Til greina kemur að loka svæðinu þann dag.

Fyrir þá sem vilja halda sig heima verður hægt að fylgjast með eldgosinu í beinni útsendingu í gegnum vefmyndavélar mbl.is.

mbl.is