Hlaupið frá Staðarskála yfir í Búðardal

Pósturinn stendur fyrir hlaupinu ásamt björgunarsveitinni Ósk og Ungmennafélags Ólafs …
Pósturinn stendur fyrir hlaupinu ásamt björgunarsveitinni Ósk og Ungmennafélags Ólafs Pá í Búðardal. Ljósmynd/Kristófer Þorgrímsson

Um það bil 80 manns tóku þátt í Pósthlaupinu í dag sem er nýtt 50 kílómetra utanvegahlaup þar sem hlaupið er á milli landshluta. Hlaupið hófst við minnisvarða um landpósta við Staðarskála í Hrútafirði og endaði í Búðardal.

„Það kom upp sú hugmynd meðal starfsmanna hjá Póstinum að efna til Pósthlaups, meðal annars Þórhildi forstjóra sem er fimmtug og vildi hlaupa 50 kílómetra,“ segir Ragnar Kristinsson, viðskiptastjóri hjá Póstinum og hlaupstjóri, í samtali við mbl.is.

„Við vildum hlaupa út á landi og ákváðum að byrja þar sem landpóstar hittust alltaf fyrr á öldum. Til þess að hlaupa 50 kílómetra ákváðum við að fara í Búðardal. Það voru tíu sem tóku þátt í 50 kílómetra hlaupinu, en alls voru um 80 því það var boðið upp á 26 og 7 kílómetra líka.“

Keppendur í 50 km hlaupinu við Minnisvarða um Landspósta áður …
Keppendur í 50 km hlaupinu við Minnisvarða um Landspósta áður en hlaupið hófst. Ljósmynd/Kristófer Þorgrímsson

Jósep Magnússon kom fyrstur í mark í 50 kílómetra hlaupinu, en hann hljóp á 3 klukkustundum og 50 mínútum. Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts, var eina konan sem hljóp 50 kílómetra og hljóp á 5 klukkustundum og 42 mínútum.

Keppendur komu í mark í Búðardal.
Keppendur komu í mark í Búðardal. mbl.is/Haraldur

Ágóðinn til björgunarsveitarinnar og ungmennafélagsins

Auk Póstsins stóðu björgunarsveitin Ósk og Ungmennafélagið Ólafur Pá einnig fyrir hlaupinu. Allur ágóði rann til björgunarsveitarinnar og ungmennafélagsins. Ingibjörg Jóhannsdóttir, stjórnandi félagsins, segir að heilt yfir hafi gengið mjög vel og að fólk hafi verið ánægt.

„Þau tóku þessu ofboðslega vel og alveg mössuðu þetta með okkur, ótrúlega skemmtileg og flott skipulagning og duglegt fólk í björgunarsveitinni sem sá um alla brautargæslu og fólk úr sveitinni sá um drykkjarstöðvar, veitingar og annað,“ segir Ragnar.

Pósthlaupið var haldið í fyrsta sinn í dag.
Pósthlaupið var haldið í fyrsta sinn í dag. mbl.is/Haraldur
mbl.is