„Í grunninn eru þetta mótmæli og kröfuganga“

Mikið af fólki er mætt við Hallgrímskirkju til að taka …
Mikið af fólki er mætt við Hallgrímskirkju til að taka þátt í göngunni. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

Stærsti viðburður Hinsegin daga, Gleðigangan, hófst klukkan 14 í dag og var þá gengið frá Skólavörðuholtinu. Eins og aðrir stórir viðburðir hefur ekki verið hægt að halda hana á meðan takmarkanir voru í gildi vegna heimsfaraldursins og er þetta því í fyrsta sinn í þrjú ár sem hún fer fram. Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, segir mikla eftirvæntingu ríkja.

„Þetta er búið að vera heljarinnar stuð og mikið í gangi. Það er mikil eftirvænting að fá að koma saman aftur í Gleðigöngunni eftir þriggja ára bið. Við skynjum gleði og samstöðu, og allt þetta sem að við viljum að Hinsegin dagar standi fyrir. Og auðvitað bara mikilvægt að baráttan haldi áfram,“ segir hann í samtali við mbl.is

Sýnileikinn mikilvægur

Að sögn Gunnlaugs Braga þá er sýnileiki sérstaklega mikilvægur um þessar mundir í ljósi þessa bakslags sem virðist vera að eiga sér stað í umræðunni um hinsegin fólk.

„Við þurfum alltaf að vera viðbúin því að það komi bakslag og þau réttindi sem við höfum þurft að berjast fyrir eiga það til að vera fallvölt þegar á móti blæs.“

Hann bindur nú vonir við að gangan geti farið fram með friði og spekt.

Eftirvæntingin er mikil, segir formaðurinn.
Eftirvæntingin er mikil, segir formaðurinn. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

„En auðvitað líka bara mátulegum ólátum líka, eins og hún hefur alltaf gert. Í grunninn eru þetta mótmæli og kröfuganga þó að við séum með gleðina á lofti. Auðvitað verður alltaf smá borgaraleg óhlýðni í leiðinni en við búumst ekkert við öðru en að okkur verði bara vel tekið.

En auðvitað er bara fylgst með öllu og eins og gerist þegar að svona margir koma saman í miðborginni þá eru viðbragðsaðilar tilbúnir að bregðast við ef á þarf að halda.“

mbl.is