Lögreglan fær torfærubíla vegna gossins

Bílarnir eru í eigu almannavarna og verða notaðir við störf …
Bílarnir eru í eigu almannavarna og verða notaðir við störf þeirra og lögreglu. Ljósmynd/Almannavarnir

Almannavarnir hafa keypt tvo nýja torfærubíla sem munu meðal annars auðvelda aðgengi lögreglu að gosstöðvunum í Meradölum. Lögreglan á Suðurnesjum hefur þegar tekið bílana í notkun.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Bílarnir eru merktir bæði lögreglunni og almannavörnum.

„Þegar erfitt er að komast að verkefnum eins og eldgosinu núna, þá var talið að væri gott að eiga slíka bíla, til þess að einfalda og líka bara upp á öryggi fólks.“

Gott að geta komist hraðar yfir

Ákvörðun um kaupin var tekin í kjölfar eldgossins í Meradölum, en umræðan hófst löngu áður, eða þegar gaus í Geldingadölum í fyrra. Bílarnir eru í eigu almannavarna og verða notaðir við störf þeirra og lögreglu.

„Það tekur um klukkutíma fyrir eins og björgunarsveitina að koma fólki niður ef það þarf á hjálp að halda. Þetta einfaldar alla þá vinnu og ýmislegt annað í kringum þetta, það eru alls konar hlutir sem koma upp og þá er gott að geta komist hraðar yfir,“ segir Hjördís.

mbl.is