Sekta þá sem leggja ólöglega við Suðurstrandarveg

Bílastæðið við gönguleiðina hefur verið þéttskipað.
Bílastæðið við gönguleiðina hefur verið þéttskipað. mbl.is/Ari Páll

Frá og með deginum í dag mun lögreglan sekta þá ökumenn sem leggja ólöglega við Suðurstrandarveg, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum. Göngugarpar sem stefna á að fara upp að gosi verða því að sjá til þess að leggja í merkt bílastæði áður en lagt er af stað.

Margmenni var á gosstöðvunum í gær og í nótt en síðasta sólarhring sóttu hátt í fimm þúsund manns gosstöðvarnar. 

Bílastæðið við gönguleiðina hefur verið þéttskipað í gær og í fyrradag og því hafa einhverjir freistast til þess að leggja í vegkanti Suðurstrandarvegar enda margir spenntir fyrir því að berja gosið augum.

Lögreglan varar þó við slíku fyrirkomulagi enda verða þeir ökumenn sektaðir sem leggja ólöglega við veginn héðan í frá.

„Merkingar eru til staðar og fara ekki fram hjá ökumönnum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert