Svo glatt að vera kynsegin

„Ég er svo glatt að vera kynsegin og gæti ekki …
„Ég er svo glatt að vera kynsegin og gæti ekki hugsað mér að fast innan boxanna, að vera karl eða kona. Ég velti mér upp úr þessu frelsi alla daga,“ segir Mars M. Proppé. mbl.is/Ásdís

Á efri hæðinni á Bakabaka í Bankastræti eru erlendir ferðamenn í bland við Íslendinga að skrafa og hlæja yfir kaffi og bakkelsi. Við gluggann situr viðmælandinn minn, Mars M. Proppé, kynsegin eðlisfræðingur sem starfar nú fyrir Samtökin ’78. Hán heilsar blaðamanni sem byrjar á að klúðra samtalinu með því að heilsa „sæl“ en ekki sælt. Svo lengi lærir sem lifir og Mars er fljótt að fyrirgefa. Samtalið fer á flug og við ræðum um líf háns sem kynsegin manneskju, um fordómana, bakslagið og baráttuna fyrir réttindum hinsegin fólks.

Bláu og bleiku tímabilin

Mars er sem fyrr segir kynsegin, sem þýðir að hán skilgreinir sig hvorki sem konu né karlmann. Hán var hins vegar alið upp sem stelpa.

„Ég var alið upp í miklu frelsi og gekk jafnt í kjólum sem buxum og lék mér bæði með dúkkur og bíla. Ég tók mín bláu og bleiku tímabil, eins og flest börn. En á unglingsárunum fann ég að fólk var með ákveðnar væntingar til mín sem stelpu en ég pældi ekki í því hvernig mér liði með það. Ég fór meira að reyna að passa inn í og fylgja settum reglum og viðmiðum, eins og var búist við af unglingsstelpum fyrir um tíu árum. Það var ekki fyrr en ég fór að pæla í femínisma í menntó að ég áttaði mig á því hve væntingar fólks væru kynbundnar. Mér fannst það óþægilegt en vissi ekki alveg af hverju,“ segir hán og nefnir að Free the nipple-byltingin var þá í algleymingi og síðar tók Me too-byltingin við.

Um átján ára aldur fór Mars að skilja betur sínar tilfinningar og átta sig á hvað hán vildi.

Óþægilegt inni í stelpuboxi

„Til að byrja með vissi ég lítið um þetta, þekkti ekkert trans fólk og var ekki inni í hinsegin samfélaginu. Eftir menntaskóla fór ég að vinna á vinnustað sem var mjög hinseginvænn og umgekkst ég þá meira hinsegin fólk. Ég byrjaði að afla mér meiri upplýsinga um hinsegin fólk og fann að ég hafði mikinn áhuga, og þá sérstaklega á trans fólki. En ég skildi ekki alveg af hverju ég hefði þennan áhuga því ég var búið að bíta það í mig að ég væri kannski bara stelpa sem væri aðeins öðruvísi en hinar stelpurnar. Þegar ég fór að kynna mér þetta betur og sá að það voru fleiri box fór mér að finnast óþægilegra og óþægilegra að vera inni í þessu stelpuboxi. Ég prófaði í smátíma að máta mig inni í strákaboxinu en sá fljótt að það passaði ekki heldur,“ segir Mars og segist hafa velt því fyrir sér í nokkurn tíma að hán væri hvorki stelpa né strákur.

„Ég lifi nú í sátt við líkama minn og finnst …
„Ég lifi nú í sátt við líkama minn og finnst hann fínn,“ segir Mars. mbl.is/Ásdís

„Það var lítið verið að ræða kynsegin fólk, hvorki hér né erlendis og lítið af fyrirmyndum. En það hefur breyst gríðarlega á síðustu fimm árum eða svo. En það olli mér miklum áhyggjum á sínum tíma og ég átti erfitt með að sjá hvernig mín framtíð yrði ef ég myndi koma út. Ég átti við mig alvarlegt samtal um hvort ég vildi koma út, því kannski væri léttara að vita þetta innst inni en segja engum. Kannski yrði lífið auðveldara ef ég myndi þykjast og reyna að passa inn í samfélagið. Þykjast vera kona eins og allir héldu að ég væri. En ég er mjög ánægt með það í dag að hafa komið út. Ég hugsa oft til þessa innra samtals því að það að vera úti hefur verið erfiðara en mig óraði fyrir en líka mjög gefandi,“ segir hán og segist síðan þá hafa verið aktíft í baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks.

„Ég er mjög glatt að hafa fengið tækifæri til að vera hluti af þessari baráttu. Með því að koma út var ég óhjákvæmilega að velja að vera aktívisti allt mitt líf,“ segir hán og bendir á að vissulega hafi hán verið tilbúið að taka það hlutverk að sér, en að slíkt sé ekki sjálfsagt. Ekki sé hægt að ætlast til þess að kynsegin fólk gerist aktívistar einungis vegna þess að þau séu kynsegin.

Flakkar á milli klefanna

Eftir að Mars kom út sem kynsegin ákvað hán að fara í brjóstnám.

„Það tók mig svolítinn tíma að átta mig á þeim kynama sem brjóstin ollu mér. Mér fannst þau ekki passa á mér. Ég byrjaði sumarið 2019 hjá transteyminu og í hálft ár fór ég í gegnum ferli þar sem maður ræðir við lækna, sálfræðinga og geðlækna. Þarna er vel unnið starf þó allt gangi hægt eins og annars staðar í heilbrigðiskerfinu, en þetta er samt framarlega miðað við önnur lönd,“ segir hán og segist hafa tekið foreldra sína með á fundi með læknum.

„Þetta var mjög erfitt fyrir foreldra mína, miklu erfiðara heldur en þegar ég kom út sem kynsegin. Þeim fannst þetta svo stórt skref en fyrir mér var þetta eðlileg þróun og andlega nauðsynlegt. Ég gat ekki lifað mínu lífi með þau,“ segir Mars og segist hafa verið farið að fela brjóst sín og forðast sundstaði.

„Mér leið strax betur eftir á. Ég lifi nú í sátt við líkama minn og finnst hann fínn. Fyrir fólk sem hefur aldrei verið í kringum kynsegin fólk þá finnst þeim það kannski skrítin hugmynd að lifa í þessu einskismannslandi á milli tveggja boxa. Þetta getur verið flókið í kynjuðum rýmum eins og í sundi; á ég að fara í karlaklefann af því að ég er ekki með brjóst eða á ég að fara í kvennaklefann af því ég er ekki með typpi.“

Hvað gerirðu?

„Ég fer bara í báða, ég flakka á milli,“ segir hán og hlær.

Sýnilegt fyrir krakkana

Nú ertu kynsegin aktívisti og vilt vera fyrirmynd. Hvað ertu að gera til að koma þínum skilaboðum til skila?

„Alltaf þegar ég kem fram reyni ég að vera hreinskilið með mínar upplifanir og tilfinningar og þegar ég birti eitthvað á samfélagsmiðlum hef ég það eitthvað sem er raunverulegt. Svo gríp ég hvert tækifæri sem ég fæ til að vera opinbert. Mig vantaði mjög mikið fyrirmyndir þegar ég var að uppgötva minn hinseginleika. Ég hefði líklega uppgötvað það fyrr ef kynsegin fólk hefði verið sýnilegra. Ég vil vera sú manneskja fyrir annað fólk. Það skiptir öllu máli. Ég vil gera þetta fyrir krakkana og ég geri mér grein fyrir að þau eru kannski ekki að lesa fréttirnar en þau eru að skoða samfélagsmiðlana. Og þó að það séu bara foreldrar þeirra sem lesa greinarnar sem ég skrifa eða horfa á viðtöl sem ég fer í, mun það komast niður til þeirra,“ segir hán og nefnir að auðvitað sé einnig mikið af kynsegin eldra fólki sem aldrei hefur komið út.  

Megum ekki slaka á

Nú virðist víða vera bakslag í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Hvað er hægt að gera til að sporna við hatursumræðu og fordómum?

„Já, það er mikið bakslag í gangi núna, ekki bara á Íslandi heldur víða. Það mikilvægasta sem við gerum, við sem stöndum með hinsegin samfélaginu, er að vera á verði og leiðrétta misskilninginn sem er í gangi í samfélaginu. Við þurfum að standa upp hvert fyrir öðru og ekki leyfa þessum hlutum að líðast.“

Þannig að best er að fara gömlu góðu leiðina, að fræða og upplýsa?

„Já, algjörlega. Og brjóta þessar mýtur upp að hinsegin málefni sé eitthvað sem eigi að skammast sín fyrir og hafa lágt um. Því hærra sem við höfum og því meira sem við tölum um þessi mál, því minni hætta er á svona bakslagi. Það er einhver undiralda núna. Það hafa orðið miklar breytingar undanfarið í menningunni og mikið batnað varðandi réttindi okkar og sýnileika. Það kallar á bakslag því sumu fólki finnst sér ógnað,“ segir Mars.

„Hér heima heyrir maður ummæli, eins og til dæmis ummæli vararíkissaksóknara, sem maður furðar sig á að fólk skuli leyfa sér að segja opinberlega. En það er kannski það sem bakslagið felur í sér, að fólk sé að leyfa sér að segja hluti sem það hefur verið að hugsa og koma út með þessi sjónarhorn því það finnur kraft í fjöldanum,“ segir hán og segir vissulega marga hafa gagnrýnt slíka hegðun.

„Við megum ekki slaka á núna.“

Velti mér upp úr frelsinu alla daga

Við förum að slá botninn í áhugavert samtal en blaðamaður á tvær spurningar eftir.

Ertu glatt að vera kynsegin?

„Já, ég er svo glatt að vera kynsegin og gæti ekki hugsað mér að fast innan boxanna, að vera karl eða kona. Ég velti mér upp úr þessu frelsi alla daga.“

Ertu bjartsýnt fyrir framtíð hinsegin samfélagsins?

„Já, algjörlega. Ég er mjög bjartsýnt vegna jákvæðrar heildarþróunar síðustu ára en aðallega vegna unga fólksins. Þau eru fólkið sem mun klára þetta. Ég mun ekki koma öllum þessum hlutum í höfn en ég hef trú á næstu kynslóð sem er mikið framsæknari en við sem eldri erum. Ég held að við munum lenda á frábærum stað, en þetta verður ekki auðvelt.“

Ítarlegt viðtal er við Mars í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »