Eldgosið mallar áfram og dregið hefur úr skjálftum

Litlar breytingar voru sjáanlegar í nótt á virkni eldgossins.
Litlar breytingar voru sjáanlegar í nótt á virkni eldgossins. mbl.is/Hákon

Svipaður gangur virtist vera á gosinu í nótt samanborið við daginn í gær, samkvæmt náttúruvársérfræðingi Veðurstofu Íslands. 

Lítið hefur þó sést til þess í vefmyndavélum sökum mikillar þoku.

„Engar breytingar sjáanlegar á vefmyndavélum  í nótt, þetta mallaði þegar sást til þess,“ segir Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is.

Skjálftunum á Reykjanesskaga virðist einnig fara fækkandi, eins og gerðist í eldgosinu í fyrra, en síðasta sólarhring mældust í kringum 240 skjálftar á Reykjanesskaga. Þá hafa um 50 skjálftar mælst á svæðinu það sem af er liðið degi. Þá eru skjálftarnir jafnframt orðnir kraftminni, en ekki hefur mælst skjálfti yfir þrjá að stærð í tvo sólarhringa.

mbl.is