Hraunið er að breiða úr sér í Meradölum

Á síðustu tveimur sólarhringum hefur hraunið þykknað um þrjá til …
Á síðustu tveimur sólarhringum hefur hraunið þykknað um þrjá til fjóra metra. mbl.is/Hákon

„Hraunið er að breiða úr sér og þykkna í Meradölum, en það á svolítið eftir í að það fari að flæða út úr dalnum,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is.

Á síðustu tveimur sólarhringum hefur hraunið við gosstöðvarnar þykknað um þrjá til fjóra metra. Ekki eru vísbendingar um að nýjar gossprungur séu að myndast.

Magnús fór að gosstöðvunum í Meradölum seinnipartinn í dag og segir hann að gangurinn í gosinu sé mjög svipaður og verið hefur síðustu daga. „Það er ekki að sjá að sé að draga úr gosinu, en ekki að aukast heldur.“

Þá sé gossprungan ekki búin að styttast meira, en lengdin var rétt innan við hundrað metra á föstudag.

Ekki öll spennan búin

Hvað skjálftavirkni varðar segir Magnús að ekki sé öll spennan búin á svæðinu, en jarðskjálfti af stærðinni 4,1 varð við Krýsuvík í dag.

„Það er eðlilegast að líta á hann sem gikkskjálfta og að þetta sé samstofna og þessir skjálftar sem voru á þessum slóðum fyrir og það er bara ekki öll spennan búin þarna, enda var atburðarásin öll miklu hraðari núna heldur en fyrir hitt gosið, þetta gerðist allt mjög hratt, þannig að það er ekkert óeðlilegt að það geti hegðað sér þannig.“

mbl.is