Mikið um slys á rafhlaupahjólum í nótt

Þó nokkrar tilkynningar bárust lögreglu vegna slysa á rafhlaupahjólum.
Þó nokkrar tilkynningar bárust lögreglu vegna slysa á rafhlaupahjólum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust þó nokkrar tilkynningar í gærkvöldi og nótt vegna slysa þar sem einstaklingur hafði fallið af rafhlaupahjóli, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

klukkan hálf ellefu í gær barst tilkynning um einstakling sem féll á rafhlaupahjóli í miðbænum og var sá fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til skoðunar.

Skömmu fyrir klukkan tvö í nótt barst önnur tilkynning um einstakling sem féll af rafhlaupahjóli í Vesturbænum. Sá var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til skoðunar.

Milli klukkan þrjú og fjögur bárust síðan þrjár tilkynningar til viðbótar um slys þar sem einstaklingur hafði fallið af rafhlaupahjóli. Enginn virðist þó hafa verið sendur með sjúkrabifreið á bráðamóttökuna.

mbl.is