Telur Björn Zoëga þurfa leggja fram gögn

Magnús Karl Magnússon læknir og prófessor telur Björn þurfa færa …
Magnús Karl Magnússon læknir og prófessor telur Björn þurfa færa fram frekari gögn fyrir fullyrðingum sínum. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Magnús Karl Magnússon, læknir og prófessor við Háskóla Íslands, telur vanta gögn til að styðja við fullyrðingar Björns Zoëga, nýskipaðs stjórnarformanns Landspítalans, um að skrifstofufólki hafi fjölgað á Landsspítalanum. Magnús var gestur Sprengisands í dag.

Líkt og mbl.is hefur greint frá telur Björn að fækka verði stjórnlögum á spítalanum. 

Í nýlegu viðtali Dagmála Morgunblaðsins við Björn kemur fram að á tíma­bil­inu 2016 til 2019 hafi verið ráðnir inn á Land­spít­ala þrír til fjór­ir starfs­menn í skrif­stofu­störf á móti hverj­um ein­um starfs­manni í hjúkr­un og lækn­ing­ar, eða klíník­ina.

Ekki mikið svigrúm

Magnús segir að þar sem að heilbrigðiskerfið sé undirfjármagnað sé ekki mikið svigrúm til að sóa fjármunum. 

„Ef að við erum með óþarfa millilög þá er sjálfsagt mál að hreinsa út. En í mínum huga, samkvæmt almennri skynsemi, ef að við erum með litla peninga í kerfi þá bendir það ekki endilega til þess að það sé mikil sóun í því kerfi,“ segir Magnús.

„Þegar við horfum á þessar stóru tölur í heilbrigðismálum. Hvernig stöndum við okkur? Við stöndum okkur bara býsna vel. Þannig að ég er ekki að sjá þess merki að það sé mikil sóun í kerfinu,“ bætir Magnús við. 

Hann segir þó sjálfsagt að fækka stjórnlögum sé Landspítalinn með mikið fleira skrifstofufólk saman borið við sambærileg sjúkrahús erlendis. 

mbl.is