Þá var hringt frá Garðabæ

Barna- og barnabarnalán Elísabetar Siemsen, fráfarandi rektors Menntaskólans í Reykjavík …
Barna- og barnabarnalán Elísabetar Siemsen, fráfarandi rektors Menntaskólans í Reykjavík og eins ástsælasta þýskukennara Fjölbrautaskólans í Garðabæ um áratugi, þekkir engin landamæri. Elísabet ræddi við Morgunblaðið um helgina í tilefni verðskuldaðra starfsloka og hefur skiljanlega frá ýmsu að segja. Ljósmynd/Aðsend

„Haldið þið að þetta sé eitthvert kaffihús!?“ Þessi spurning felur í sér líklega ein eftirminnilegustu orð Elísabetar Siemsen við kennslu í áfanganum Þýsku-502 í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á vorönn 1993, fyrir tæpum 30 árum. Þá gekk sá er hér drepur niður penna inn í stofu hennar ásamt góðvini sínum Andra Ægissyni með samtals fjóra kaffibolla meðferðis. Eitthvað þurfti til að lifa af þessa síðustu tíma á föstudögum.

Nú, 30 árum síðar, rís sól eftirlaunaára Elísabetar úr sæ, hún lét af störfum sem rektor Menntaskólans í Reykjavík nú í vikunni og féllst á að ræða langan náms- og starfsferil við Morgunblaðið. Við gefum rektornum fráfarandi orðið.

„Ég er fædd í Hafnarfirði en alin upp í Reykjavík. Ég bjó fyrstu átta árin í Eskihlíð og gekk í Hlíðaskóla, átti stutta viðkomu í Hvassaleiti áður en fjölskyldan flutti svo á Fjölnisveginn og þar er sá tími sem ég man svona best eftir,“ segir Elísabet sem er sú fjórða í aldursröð fimm systkina, dóttir Ludwigs H. Siemsen, sem fæddur var í Þýskalandi, þó fæddur íslenskur ríkisborgari, sonur íslensks föður og þýskrar móður.

Landspróf í Gaggó Aust

Föðurafi Elísabetar var alinn upp í Hafnarfirði þar sem langafi hennar var sýslumaður. Móðir hennar var Sigríður Ólafsdóttir Theódórs, Vesturbæingur uppalin á Marargötu en móðurafi Elísabetar byggði Marargötu 7 á sínum tíma. „Þar á móti byggði Hafsteinn Bergþórsson ömmubróðir minn og húsið þar fyrir neðan, Öldugötu 26, byggði ömmusystir mín Guðbjörg Bergþórsdóttir og var með búð þar,“ segir Elísabet frá.

Ungur þýskukennari og forvarnafulltrúi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á forvarnadaginn …
Ungur þýskukennari og forvarnafulltrúi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á forvarnadaginn árið 1999, skólinn þá nýlega kominn í nýtt og glæsilegt húsnæði. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

Hennar hópur úr Hlíðaskóla fór svo allur í Gaggó Aust til að taka landspróf. „Þarna var enn svo mikil hverfaskipting á framhaldsskólunum að við systkinin, öll nema elsti bróðir minn, fórum í Menntaskólann í Reykjavík, það var okkar skóli,“ segir Elísabet sem varð stúdent árið 1975.

„Sjötti bekkur þá var rosalega öflugur og fjölmennur, mig minnir að þau hafi verið 301 sem útskrifaðist 1972. Þarna var mjög aðsópsmikið fólk, Hannes Hólmsteinn [Gissurarson] og Kjartan Gunnarsson til dæmis. Maður var nú bara eins og lítill hvolpur þarna,“ segir Elísabet og hlær.

Áfall á menntaskólaárum

Hún innritaðist í þýsku og guðfræði við Háskóla Íslands að loknu stúdentsprófi. „Ég var nú eitthvað að íhuga lögfræði en úr varð nú ekki,“ segir Elísabet sem einnig lagði stund á tónlistarnám. Samhliða menntaskólanum var hún í fullu námi í Tónlistarskólanum í Reykjavík. „Ég var komin mjög langt í píanónámi og ætlaði mér út á þá braut. Í 5. bekk í MR veikist ég svo og varð að hætta tónlistarnáminu. Unglingsárin voru kannski dálítið strembin, ég átti systur sem var tíu árum yngri en ég og hún deyr þegar ég er í menntó,“ segir Elísabet.

Þá lífsreynslu kveður hún hafa sett mark sitt á menntaskólaár hennar, hún hafi verið töluvert frá skóla og ekki getað tekið þátt í hinu lífsnauðsynlega félagslífi framhaldsskólaáranna, bestu minningum margra frá því æviskeiði. „Þess vegna sagði ég nú oft við nemendur mína hafið nú eitthvert plan B þegar þið hugsið um hvað þið ætlið að verða þegar þið verðið stór,“ segir Elísabet.

Guðfræðinnar í háskólanum minnist hún með hlýju. „Ég var svo heppin að komast í tíma hjá Róberti Abraham Ottóssyni og fleiri góðum og sérstökum mönnum sem er gaman að hafa kynnst. En á þeim tíma stefndu auðvitað allir sem fóru í guðfræði á að verða prestar og það var ekki það sem ég hafði hugsað mér svo ég breytti um kúrs og fór í íslensku samhliða þýskunni,“ segir Elísabet sem lauk BA-prófum í báðum greinunum á þremur árum og snýr svo til baka í Menntaskólann í Reykjavík árið 1978, þá sem kennari.

Gat ekki hugsað sér Berlín

„Það var svona eldskírnin, ég hafði náttúrulega ekki hugmynd um hvort þetta ætti við mig,“ segir Elísabet sem hélt fljótlega til frekara náms í Kaupmannahöfn. Hún var þá orðin gift kona eiginmanni sínum, Guðmundi Ámundasyni verkfræðingi. „Hann var að fara í framhaldsnám í verkfræði og við horfðum dálítið til Berlínar. Það voru ekki margir staðir í Þýskalandi þar sem við gátum bæði komist í nám í svo ólíkum greinum,“ segir Elísabet en hugur hennar stóð til áframhaldandi náms í málvísindum.

Elísabet og Guðmundur ásamt börnum sínum fjórum, frá vinstri Helgu, …
Elísabet og Guðmundur ásamt börnum sínum fjórum, frá vinstri Helgu, Guðna, Ólafi og Sigríði. „Mjög þjóðlegt allt saman,“ segir Elísabet af nöfnunum. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna erum við búin að eignast lítinn dreng og ég eiginlega gat bara ekki hugsað mér að flytja til Berlínar í það ástand sem þar ríkti árið 1979,“ segir Elísabet um löngu horfinn tíma Austur- og Vestur-Þýskalands með múr á milli. „Þannig að við förum til Kaupmannahafnar og ég er dýrasti nemandi í Kaupmannahafnarháskóla fyrr og síðar,“ segir rektorinn fráfarandi og hlær við.

Hún innritaðist þar í norrænudeildina og þar á cand.phil.-stig í samanburðarmálfræði, merkingarfræði og fleiri fög. „Á þessum tíma fóru Danir ekkert í þessar greinar, þá fóru allir í bókmenntir. Ég tók líka þýðingafræði sem þýddi að ég þurfti náttúrulega að kunna almennilega dönsku og ég var eini nemandinn í þessum greinum sem ég valdi mér, ég var bara ein þarna með prófessorunum sem þýddi náttúrulega að ég fékk mjög góða kennslu,“ segir Elísabet.

Dregur til tíðinda

Hins vegar var á brattann að sækja með leikskólapláss í kóngsins Kaupmannahöfn fyrir 40 árum svo Elísabet var neydd til að lesa fræðin mikið utanskóla. „Maður var rosalega mikið einn á þessum árum og það var hálfóraunverulegt að segja börnunum sínum frá þessu síðar, það var enginn sími, engar tölvur og bara ekkert. Auk þess átti maður ekki krónu með gati og maður lærði bara að lifa með því. Þannig að ég er búin að vera heimavinnandi fyrir lífstíð,“ segir Elísabet glettnislega. Um þetta leyti dregur svo til tíðinda.

„Ég er dýrasti nemandi Kaupmannahafnarháskóla fyrr og síðar.“
„Ég er dýrasti nemandi Kaupmannahafnarháskóla fyrr og síðar.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Þegar ég er þarna að byrja að skrifa lokaritgerðina mína er hringt frá Garðabæ,“ segir hún frá. Þetta var árið 1982. „Þarna er mér boðin staða þýskukennara við framhaldsdeildir Garðaskóla sem þá hétu,“ heldur hún áfram en framhaldsdeildir þessar urðu síðar að Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

„Ég var svona beggja blands, var þarna að byrja á ritgerðinni minni, og ég leita mér ráða hjá mér gáfaðri mönnum og er hvött eindregið til að þiggja boðið. Á þessum tíma var mjög erfitt að fá stöður. Svo ég tek þetta og byrja í Garðabænum og er þar í 35 ár,“ segir Elísabet sem kennt hefur aragrúa Garðbæinga og nærsveitunga við fjölbrautaskólann. Síðar, árið 2004, lauk hún meistaraprófi í kennslufræðum frá Háskóla Íslands auk þess að leggja stund á opinbera stjórnsýslu og sitja fjölda stjórnendanámskeiða.

Ofboðslega skemmtilegur tími

„Þarna bauðst mér tækifæri sem mjög fáum býðst, að koma að og eiga þátt í uppbyggingu heils skóla. Þetta var ofboðslega skemmtilegur tími. Ég var yngst, flestir þarna voru fimm til tíu árum eldri en ég þótt þetta hafi til þess að gera verið allt mjög ungt fólk og mjög áhugasamt, öflugir kennarar og við vorum líka bara svo samstíga í því hvernig skóla við vildum búa til,“ rifjar Elísabet upp af mótunarárum Fjölbrautaskólans í Garðabæ sem síðar er orðinn stórveldi meðal framhaldsskóla á Íslandi, nú undir stjórn Kristins Þorsteinssonar skólameistara sem ræddi við Morgunblaðið í fyrrahaust.

Barnabörn Elísabetar og Guðmundar eru orðin sjö auk þess sem …
Barnabörn Elísabetar og Guðmundar eru orðin sjö auk þess sem hvolpur er kominn á heimilið og Elísabet ætlar að læra ítölsku nú er á eftirlaun er komið. Nóg að gera. Frá vinstri: Viktor Darri, Alexander Óli, Kristófer Sölvi (grænn bolur), fyrir framan hann Guðmundur Einar, Ingibjörg (í rauðu), í fanginu á henni er Katrín Lea. Glókollurinn heitir Þorgrímur Ágúst. Ljósmynd/Aðsend

Elísabet kveður Gunnlaug Sigurðsson, skólastjóra Garðaskóla til áratuga, og Þorstein Þorsteinsson, fyrsta skólameistara FG, hafa unnið þrekvirki við mótun skóla hvers tilvistarréttur hafi í fyrstu nánast hangið á bláþræði. „Garðbæingum fannst miklu flottara á þessum tíma að senda börnin inn í Reykjavík og krakkarnir sem komu til okkar [í FG] voru margir hverjir bara að berjast gegn foreldrum sínum,“ segir Elísabet og bætir því við að staða skólans sé býsna ólík nú.

Þá fyrst reynir á þig sem kennara

„Við vorum nú flestöll MR-ingar, fyrstu kennararnir þarna og við vorum þess vegna rosalega hörð á gæðum bóknámsins og vorum af gamla skólanum hvað það varðaði, en við vildum líka fá breiðan nemendahóp. Nú þegar ég lít til baka sé ég að þróunin varð fljótt sú að við fórum að fá sterkari nemendur í skólann, ekki lengur bara fólk sem hugsaði með sér æ, ég fer bara þarna af því að ég hef ekkert annað. Ég hef alltaf sagt að sem kennari er mjög ánægjulegt að ná til nemenda í hópi þar sem getan er mjög breið, þá fyrst reynir á þig sem kennara,“ segir Elísabet sem óhætt er að segja að hafi marga fjöruna sopið í skólamálum. Eins má geta þess hér að hún fór fjölda námsferða til Þýskalands með nemendur sína.

Svo verður hún rektor Menntaskólans í Reykjavík árið 2017 og hverfur nú þaðan á eftirlaun. Hvernig kom þetta til? „Ég tók við starfinu 1. nóvember 2017. Þeir sem voru að hvetja mig til að sækja um þessa stöðu var fyrst og fremst fólk innahúss [í MR] og ég hugsaði með mér að kannski væri nú bara gaman að klára ferilinn þar svona til að loka hringnum, af því ég byrjaði þar,“ segir Elísabet sem ráðin var úr hópi níu umsækjenda.

Á umbrotatímum í MR

Hún hafi þó gert sér grein fyrir því að ekki yrði auðvelt að koma beint inn á nýjan vinnustað sem yfirmaður. „Það er kalt á toppnum en mig óraði þó ekki fyrir því sem beið mín. Þarna eru frábærir kennarar og mjög sérstök menning. Mér fannst vanta ýmislegt sem við vorum búin að koma í gegn í Garðabænum, en það er kannski bara vegna þess að einhverjar breytingar fylgja alltaf nýju fólki,“ segir rektorinn fyrrverandi.   

Elísabet kom inn í skólann á umbrotatímum sem snerust um styttingu framhaldsskólanáms. „Fólk var dálítið í sárum, það var búið að berjast svo lengi gegn styttingunni sem var byrjuð en alls ekki lokið þegar ég byrja í MR. Ég stóð þá frammi fyrir því að eftir fyrsta árið mitt myndi nemendum fækka um 25 prósent, þar með drægist kennslumagn saman sem táknaði fækkun kennara,“ segir hún. Vinna til að mæta þeirri byltingu hafi hreinlega ekki verið hafin.

Viðtalið í heild sinni má lesa í Morgunblaði laugardagsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert