„Við erum svo skemmtileg hérna á Suðurnesjunum“

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid heimsóttu Grindvíkinga á miðvikudag, …
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid heimsóttu Grindvíkinga á miðvikudag, skömmu áður en gos hófst í Meradölum. Þrátt fyrir skjálftavirkni og eldgos eru Grindvíkingar ánægðir á sínum heimaslóðum. mbl.is/Hákon Pálsson

Þegar tölur eru skoðaðar um íbúafjölgun sveitarfélaga undanfarna sex mánuði á vef Þjóðskrár kemur í ljós að hlutfallslega mest fjölgun hefur orðið á Suðurnesjum, eða um 4,3%, sem er fjölgun um 1.250 íbúa. Til samanburðar fjölgaði á sama tímabili um 1.868 íbúa í Reykjavík og á Suðurlandi var fjölgunin 870 íbúar. Mælt var á tímabilinu 1. desember 2021 fram að 1. ágúst 2022 og eru niðurstöðurnar athyglisverðar, ekki síst í ljósi jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesi bæði í fyrra og núna í Meradölum.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir tölurnar ekki koma honum á óvart. „Við merkjum aukinn áhuga á Grindavík að við vorum búin með lóðalagerinn okkar, en þær voru allar búnar núna í haust og við vorum kannski of sein á okkur að búa til lóðir í nýju hverfi. En það var úthlutun hjá okkur í desember og það var margföld eftirspurn eftir lóðunum umfram framboðið. Þær hurfu bara á einum fundi.“

–Eru þetta Reykvíkingar að seilast eftir lóðum hjá ykkur?

„Já, það er eitthvað um það, enda má segja að Reykjanesið og höfuðborgarsvæðið sé eiginlega orðið að einu atvinnusvæði. Svo eru verktakar líka að byggja hér, allt frá einbýlishúsum, raðhúsum til 2-3ja hæða fjölbýlishúsa. Svo er líka gaman að að segja frá því að unga fólkið sem hefur alist hér upp vill halda áfram að vera hérna. Einnig höfum við séð brottflutta Grindvíkinga vera að snúa til baka á æskuslóðirnar.“

Fannar segir að mikil uppbygging á húsnæði sé fyrirhuguð í bænum.

Bráðvantar húsnæði í bænum

„Sumir myndu halda að fólk væri frekar að yfirgefa bæinn í ljósi þessara jarðhræringa og gosa undanfarin ár, en það er nú eitthvað annað. Það hefur gengið mjög vel hér og fasteignamarkaðurinn líflegur. Núna er t.d. nánast ekkert í sölu í bænum, og bráðvantar húsnæði. Svo erum við að hefja byggingu á nýjum leiksskóla og nýlega var lokið við að byggja við grunnskólann okkar. Þá má ekki gleyma að Grindavík er eitt af fjársterkustu sveitarfélögum landsins og samkvæmt könnunun sem Gallup gerir árlega meðal íbúa 20 fjölmennustu sveitarfélaga landsins þá var hvergi meiri ánægja með sveitarfélagið sitt heldur en hjá Grindvíkingum.“

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út á laugardaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert