Ferðamenn á gosstöðvunum þrátt fyrir lokun

Lokað er á svæðinu í dag.
Lokað er á svæðinu í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Nokkur fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosstöðvunum í Meradölum í dag, þrátt fyrir að lögregla hafi lokað fyrir aðgengi að þeim. 

„Á einhverju tímabili þá tókst fólki að komast inn á þessar gönguleiðir og eru inni á svæðinu þar sem engir viðbragðsaðilar eru núna,“ segir Gunnar Schram yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

„Við erum ekki með viðbragðsaðila upp á fjalli, eins og væri ef að svæðið væri opið,“ bætir hann við.

Ekkert ferðaveður

Gunnar segist halda að flestir sem séu á staðnum séu erlendir ferðamenn, en allir sem koma inn á svæðið fá sms-skilaboð um slæm veðurskilyrði á bæði íslensku og ensku.

„Það var varla stætt fyrir björgunarsveitarmenn sem fóru þarna rétt fyrir hádegi að gosstöðvunum. Það er gjörsamlega ekkert ferðaveður,“ segir Gunnar. 

Hann segir að lögreglu- og björgunarsveitarmenn muni halda áfram að standa vaktina við upphaf gönguleiðarinnar og ráðleggja fólki að fara ekki áleiðis. 

„Við erum að vinna með ástandið eins og það er núna. Við höldum áfram að ráðleggja fólki að fara ekki.“

mbl.is