Fundu manninn vegna myndsímtals

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Maður sem lenti í sjálfheldu við Bjarnarfjall og var bjargað í morgun með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar, fannst með aðstoð myndsímtals frá björgunaraðilum.

„Það komu hnit úr síma sem gátu ekki staðist. Þau afvegaleiddu okkur aðeins í upphafi. Hann var beðinn að lýsa umhverfi sínu og það passaði ekki alveg saman. Við tókum þá þetta myndsímtal og létum hann sýna umhverfi sitt með símanum. Þá fengum við miklu betri hugmynd um hvar hann var,“ segir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is.

Jóhannes segir að um sé að ræða mann sem sé vanur útivist og fjallgöngum og að hann hafi farið eftir leiðbeiningum um gönguleið.

„Þetta er ekki reynsluleysi sem er um að kenna heldur aðstæður sem eru viðsjárverðar. Hann er þarna í snarbrattri hlíð og búinn að skorða sig af við stein.“

Nánast á sama stað og þýskur ferðamaður lést

Jóhannes segir þetta nánast vera á sama stað og þýskur ferðamaður fannst látinn fyrir stuttu. Erfitt sé að loka svæðinu í forvarnarskyni en verið sé að skoða hvað sé hægt að gera.

Björgunarsveitir voru kallaðar út í nótt eftir að tilkynning barst frá göngumanninum og var hann fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Akureyrar til aðhlynningar fyrir klukkan 10 í morgun. Maðurinn er ekki slasaður.

mbl.is