Geta fylgst með þróuninni fram að eldgosi

Sindri segir áhugavert að bera saman eldgosið í Geldingadölum og …
Sindri segir áhugavert að bera saman eldgosið í Geldingadölum og í Meradölum. mbl.is/Kristófer Liljar

Sérfræðingar ráðgjafa- og hugbúnaðarfyrirtækisins Expectus hafa smíðað gagnvirkt og lifandi mælaborð í Tableau sem byggt er á jarðskjálftagögnum frá Veðurstofu Íslands og sýnir meðal annars þróun skjálftavirkninnar á Reykjanesskaga. Tilgangurinn er að varpa betra ljósi á staðsetningu, tíðni og umfang skjálftanna.

„Stofnanir eins og Veðurstofan búa yfir frábærum gögnum sem safnað er saman í rauntíma alls staðar af landinu.  Á síðu veðurstofunnar og í almennri umfjöllun fannst okkur í Expectus skorta betri yfirsýn yfir þróun skjálftanna í undanfara fyrra gossins 2021.

Við ákváðum því að smíða lifandi mælaborð sem myndi gera okkur og öðrum kleift að horfa myndrænt á þróun þeirra fram að eldgosi,“ segir Sindri Sigurjónsson, stjórnarformaður Expectus.

Ljósmynd/Aðsend

Bera saman síðustu tvö eldgos

Ákveðið var að „kveikja“ aftur á mælaborðinu til þess að hægt væri að sjá þróunina núna og bera þessi jarðskjálfta umbrot saman.

„Það er áhugavert að sjá myndrænt og bera saman eldgosið í Geldingadölum í fyrra og gosið í Meradölum,“ segir Sindri.

„Fjöldi jarðskjálfta núna frá 25. júlí og fram að eldgosi 3. ágúst voru um eitt þúsund, en aðeins 17 þeirra voru það sterkir að margir á suðvesturhorninu fundu fyrir þeim. Þessir 17 skjálftar voru allir yfir 4,0 á Richter, sem flokkast sem meðalstór skjálfti og finnst greinilega meðal almennings.“

Sindri Sigurjónsson, stjórnarformaður Expectus.
Sindri Sigurjónsson, stjórnarformaður Expectus. Ljósmynd/Aðsend

Hefði átt að gjósa síðar í ágúst

Fyrsti stóri jarðskjálftinn á svæðinu í fyrra mældist 5,7 að stærð þann 24. febrúar 2021 og voru skjálftar samfleytt í 23 daga fram að eldgosi, yfirleitt um 200 skjálftar á dag. Fyrsti stóri skjálftinn í aðdraganda gossins í Meradölum varð 31. júlí, 5,4 að stærð. Í ár var meðalfjöldi skjálfta um 100 á dag.

„Ef jafnmargir dagar hefðu liðið frá fyrsta stóra skjálftanum 2021 hefði eldgosið núna átt að eiga sér stað 22. ágúst, en það tók ekki nema bara örfáa daga, fimm dagar liðu frá því að fyrsti stóri skjálftinn varð og þar til eldgosið hófst,“ segir Sindri.

„Því er áhugavert að velta því fyrir sér hvort skjálftahrinan í fyrra hafi eitthvað losað um berglögin sem gæti gert það að verkum að kvika gæti komið upp jafnvel fyrr í næstu gosum, eða hvort magn kviku sé svona miklu meira.“

Sindri segir að mælaborð eins og þetta geti komið að góðum notum til þess að miðla í auknum mæli gögnum frá hinu opinbera til almennings og gera sem flestum kleift að nýta þau sér til upplýsinga. „Þetta eru eiginlega tölur á mannamáli, ef svo má segja,“ segir Sindri og bætir við að þörf sé á fleiri mælaborðum á öðrum sviðum.

mbl.is