Loka gosstöðvunum þangað til á morgun

Ferðamenn verða að bíða með að skoða gosið í einn …
Ferðamenn verða að bíða með að skoða gosið í einn dag til viðbótar, að minnsta kosti. mbl.is/Hákon Pálsson

Áfram verður lokað fyrir aðgengi að gosstöðvunum í Meradölum í dag vegna veðuraðstæðna en veðurútlit fyrir svæðið er ekki gott. Er stefnan sett á að opna svæðið aftur klukkan 10 í fyrramálið á morgun, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Á meðan svæðið er lokað verður tíminn nýttur í að lagfæra gönguleið A upp að eldgosinu, en það er sú gönguleið sem almannavarnir mæla með að fólk fari. Þá verður einnig unnið að öðrum lagfæringum á svæðinu.

Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum í gær. Gul viðvörun vegna veðurs tók gildi klukkan níu um morguninn á bæði Suðurlandi og í Faxaflóa og var versta veðrið meðfram suðurströndinni, frá Vestmannaeyjum og að Reykjanesskaganum. 

Viðvörunin var í gildi til klukkan 15 en tekin var ákvörðun um að halda svæðinu áfram lokuðu út daginn. Sú lokun hefur nú verið framlengd.

mbl.is