Ný herferð fyrir rétti til að mótmæla

Mannréttindaganga Amnesty International 21. febrúar árið 2016.
Mannréttindaganga Amnesty International 21. febrúar árið 2016. mbl.is/Kristinn Magnússon

Amnesty International ýtir í dag úr vör nýrri herferð til að sporna gegn tilraunum stjórnvalda til að grafa undan rétti til þess að mótmæla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International.

Mun þetta vera alþjóðleg herferð sem styður við herferð sem Íslandsdeild samtakanna hóf á síðasta ári og ber heitið Án mótmæla verða engar breytingar.

Í tilkynningunni er haft eftir Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International, sem segir að nánast undantekningarlaust hafi fjöldamótmælum síðustu ára verið mætt með tálmunum og ofbeldi af hálfu stjórnvalda.

„Í stað þess að greiða fyrir réttinn til að mótmæla ganga yfirvöld sífellt lengra í tilraun sinni til að takmarka þennan rétt. Því ákváðu stærstu mannréttindasamtök í heimi, að hefja þessa herferð á þessum tímapunkti. Það er kominn tími til að rísa upp gegn valdhöfum og minna þá á óafsalanlegan rétt okkar til að mótmæla, tjá óánægju okkar og krefjast breytinga í sameiningu á frjálsan og opinberan hátt,“ segir Callamard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert