Stórar sprungur myndast í Sundhnjúki

Ljósmynd/Guðlaugur Viðarsson

Stórar sprungur hafa myndast í fellinu Sundhnjúki norður af Grindavík. Sérfræðingar telja þær hafa myndast í stærsta skjálftanum sem reið yfir áður en eldgosið í Meradölum hófst á miðvikudaginn í síðustu viku.

Guðlaugur Viðarsson, sem býr í Grindavík, fór í hjólatúr upp á Sundhnjúk í gær en hann heimsækir svæðið reglulega og sá hann því strax að sprungan væri ný. 

„Ég er búinn að fara mörgum sinnum í gegnum tíðina upp á hnjúkinn. Þannig að ég veit alveg hvernig fjallið leit út fyrir skjálftann, þetta var ekkert þá,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is.

Ljósmynd/Guðlaugur Viðarsson

Bendir á 5,4 skjálftann

Esther Hlíðar Jensen, landmótunarfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að sérfræðingar frá Veðurstofunni muni líta á sprungurnar þegar veðrið hefur gengið niður. Hún telur þó líklegt að sprungurnar hafi myndast í skjálfta sem reið yfir þremur dögum áður en gosið hófst. 

„Það var skjálfti upp á 5,4 sem var ekki langt frá. Hann var upphafið að skjálftahrinunni. Við teljum að þessar sprungur hafi myndast í þeim skjálfta.“

mbl.is