„Það skiptir ekki máli hver upphæðin er“

Óshlíðarvegurinn er illa farinn.
Óshlíðarvegurinn er illa farinn. Ljósmynd/Jón Páll Hreinsson

Bolvíkingar eru ósáttir við áform innviðaráðherra um að hefja gjaldtöku í öll jarðgöng landsins. Íbúi segir gjaldtökuna fara gegn markmiði Bolungarvíkurganganna, sem hafi verið að styrkja byggðarlög á svæðinu.

Áform ráðherra voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda þann 18. júlí og var veittur frestur til umsagnar til 2. ágúst. Alls bárust ellefu umsagnir, meðal annars frá bæjarráði Bolungarvíkur. 

„Við erum andvíg gjaldtöku í Bolungarvíkurgöngum. Það skiptir ekki máli hver upphæðin er,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, í samtali við mbl.is.

Jón Björn Há­kon­ar­son, bæj­ar­stjóri Fjarðabyggðar, hefur einnig gagnrýnt gjaldtökuna.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur.

Yfir 200.000 krónur á ári

Einar Kristinn Guðfinnsson, íbúi á Bolungarvík og fyrrverandi alþingismaður, segir bæjarbúa íhuga að krefjast þess að Óshlíðarvegur verði opnaður á ný, eigi að hefja gjaldtöku fyrir akstur um göngin, en veginum var lokað eftir tilkomu þeirra.

Hann segir Bolvíkinga þó nefna þetta í hálfkæringi. 

„Menn eru auðvitað að tala um þetta í hálfkæringi, en benda á að þegar göngin voru gerð var á sama tíma tekin ákvörðun um að leggja niður þennan hættulega veg um Óshlíð. Þar með hafa íbúar Bolvíkingar eingöngu eina leið úr bænum,“ segir Einar við mbl.is en hann vakti einnig athygli á málinu á Facebook-síðu sinni. 

Einar K. Guðfinnsson, íbúi í Bolungarvík.
Einar K. Guðfinnsson, íbúi í Bolungarvík. mbl.is/Hari

Markmiðið að styrkja byggðarlögin

Hann bendir á að margir Bolvíkingar fari í gegnum göngin, sem tengja Bolungarvík við Ísafjörð, daglega. Kostnaðurinn geti því orðið gífurlegur.

„Það sem hefur verið bent á er að ef að menn þurfa að fara til vinnu eða sækja þjónustu einu sinni á dag, sem er ekkert óalgengt, þá kosti það yfir 200.000 krónur á ári,“ segir hann og bætir við:

„Markmiðið með göngunum var jú að styrkja þessi byggðarlög sem eitt sameiginlegt þjónustu- og atvinnusvæði. Hættan er sú að það muni allt saman veikjast ef farið verður að innheimta sérstakt gjald af ferðum þarna á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert