Þyrla Landhelgisgæslu sótti mann í sjálfheldu

Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir mann í sjálfheldu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir mann í sjálfheldu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti mann í sjálfheldu á Bjarnarfjalli í morgun. Talsmaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sagði í samtali við mbl.is að öruggast hefði þótt að nýta þyrluna í þetta verkefni.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi Eystra segir að tekist hafi að senda niður sigmann sem hífði manninn sem var í sjálfheldu um borð í þyrluna. Hann var fluttur til Akureyrar og kenndi sér ekki meins.

Í tilkynningunni segir að maðurinn sé á svipuðum slóðum og þýski ferðamaðurinn sem lést í fjallgöngu fyrir nokkrum dögum. Þarna eru brattar og lausar skriður í sjó fram og því afar hættulegar aðstæður. Um 60 manns unnu að björgunaraðgerðinni.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að ágætis veður hafi verið á staðnum og maðurinn sé ekki talinn vera slasaður og virðist ekki illa haldinn. Hann er búin að vera í góðu sambandi við viðbragðsaðila að sögn Davíðs.

Í tilkynningu segir að björgunarsveitir á Norðurlandi hafi verið kallaðar út um miðja nótt eftir að tilkynning barst frá manni sem var í sjálfheldu í fjalllendi. Upphafleg staðsetning á manninum var talin vera á Stráfjalli og hófst leit þar um klukkan fjögur í nótt sem skilaði ekki árangri.

Tókst loks að staðsetja manninn á Bjarnarfjalli við Hvalvatnsfjörð austanmegin við Eyjafjörð. Björgunarsveitarmenn voru sendir þangað bæði landleiðina og á bátum um klukkan 6 í morgun.

Uppfært klukkan 9.06: þyrlan hefur flutt manninn til Akureyrar.

 

 

mbl.is