Um tíu bjargað úr Meradölum

„Það er enn þá eitthvað fólk þarna uppi, það eru …
„Það er enn þá eitthvað fólk þarna uppi, það eru einhverjir 20 til 30 bílar þarna.“ mbl.is/Hákon Pálsson

Um tíu ferðamönnum var bjargað af björgunarsveitinni um klukkan sex í kvöld en göngufólkið var komið langt út af gönguleið og rammvillt í svartaþokunni í Meradölum. Þetta staðfestir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is

Áður var greint frá að björgunarsveitir Landsbjargar hafi bjargað fjórum en í raun var tíu bjargað. Segir Davíð að um sé að ræða tvo hópa sem að týndust samtímis.

Að sögn Davíðs var ekki aðeins erlendum ferðamönnum bjargað heldur voru þar nokkrir Íslendingar sem þurftu einnig á aðstoð björgunarsveitanna að halda.

Að sögn Boga Adolfssonar, formanni björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, var fólkið blautt, kalt og hrakið þegar að björgunarsveitirnar komu að því. Þau höfðu þá verið villt í nokkurn tíma. Hann segir að nokkur hætta hafi verið á ofkælingu ef fólkið hefði verið týnt mikið lengur.

Björg­un­ar­sveit­ir á suðvest­ur­horni lands­ins voru kallaðar út laust fyr­ir klukk­an fjög­ur að gosstöðvun­um vegna göngu­fólks sem hafði villst á leið til og frá eld­gos­inu. Gosstöðvarnar hafa verið lokaðar síðan í gærmorgun. Ljóst er að fjöldi fólks hefur ekki farið eftir þeim tilmælum, enda eru um 20 til 30 bílar á svæðinu að sögn Boga. 

Býst við að það verði mikið að gera í kvöld

„Það er búið að finna þau og þau eru á leiðinni niður. Þau voru fjögur en það er búið að hirða upp einhverja til viðbótar í leiðinni,“ sagði Bogi en ljóst er að lokatala þeirra sem þurftu á hjálp að halda hafi verið um tíu manns. Bogi býst ekki við að þetta verði eina útkallið sem að björgunarsveitin þurfi að sinna í kvöld.

Hann segir að ferðamennirnir hafi misst af stiku á leiðinni til baka frá gosstöðvunum og að þau hafi verið komin nokkra kílómetra frá gönguleiðinni þegar þau fundust.

Bogi segir það blessunarlegt að það hafi gengið vel að finna fólkið en ítrekar mikilvægi þess að fólk fari að tilmælum björgunarsveitanna og almannavarna og fari sér ekki að voða í slæmu veðri.

„Það er enn þá eitthvað fólk þarna uppi, það eru einhverjir 20 til 30 bílar þarna.“ Hann bætir að björgunarsveitirnar verði líklegast á svæðinu fram eftir kvöldi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina