Utanvegaakstur við gosstöðvarnar ákveðið vandamál

Ferðamenn við eldgosið. Veðrið þar er ekki svona fallegt í …
Ferðamenn við eldgosið. Veðrið þar er ekki svona fallegt í dag og því óheimilt að fara að gosinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Utanvegaakstur við gosstöðvarnar í Meradölum er „ákveðið vandamál“ en erfitt er að halda utan um það hve umfangsmikið það er, að sögn lögreglustjórans á Suðurnesjum. Vonda veðrið á svæðinu í dag verður nýtt í að gera lagfæringar á gönguleiðinni upp að gosinu.

Á fundi lögregluembættisins í morgun var tekin ákvörðun um að svæðið yrði áfram lokað.

„Vegna þess að það er slæm veðurspá fyrir svæðið. Við gerum ráð fyrir að það verði opnað aftur klukkan 10 í fyrramálið. Við notum tækifærið í dag til þess að gera lagfæringar á gönguleið A – það er sú leið sem vel flestir fara – og jafnframt aðrar lagfæringar á svæðinu,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Vinnuvélar verða notaðar við lagfæringarnar í dag.

„Við notum þessar aðstæður til þess að gera þarna ákveðnar betrumbætur.“

Uppsöfnuð reynsla

Úlfar segir mikla samvinnu á milli lögreglunnar og björgunarsveitarmannanna á svæðinu.

„Við erum að standa í þessu í annað sinn á tveggja ára tímabili svo það er auðvitað uppsöfnuð reynsla og svipaður hópur sem kemur að þessu eins og í fyrra,“ segir Úlfar.

Svæðið var einnig lokað í gær og segir Úlfar að það hafi gengið vel.

„Fólk sýnir þessu skilning.“

Lögreglustjórinn veit ekki til þess að fólk hafi verið sektað fyrir að leggja ólöglega á svæðinu en spurður um utanvegaakstur segir hann:

„Það er alltaf eitthvað um utanvegaakstur, það er erfitt að halda utan um það en það er ákveðið vandamál.“

mbl.is