Vanur kylfingur líklega á bak við skemmdarverk

Skemmdarverk hafa verið unnin á flötum GKG.
Skemmdarverk hafa verið unnin á flötum GKG. Ljósmynd/Aðsend

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar (GKG) hefur tilkynnt um skemmdarverk sem unnin hafa verið á flötum klúbbsins.

Í tilkynningu frá GKG kemur fram að óprúttnir einstaklingar hafi unnið skemmdir á nokkrum flötum, bæði á Mýrinni og Leirdalsvelli, í skjóli nætur. Segja þau að það sé ömurlegt að koma að flötunum svona skemmdum þar sem högg hafi vísvitandi verið slegin til að valda skemmdum.

Geti leitt af sér brottrekstur

„Miðað við lögun kylfufaranna þá benda þau til að um nokkuð vanan kylfing sé að ræða og því ekki hægt að kenna vankunnáttu um,“ segir í tilkynningunni.

Bent er á að viðurlög við svona háttsemi geta varðað brottrekstri úr klúbbnum. Biðja þau félagsmenn GKG um að láta vita ef sést til fólks að valda skemmdum á golfvöllum þeirra. 

mbl.is