Vilja gera meiri kröfur á dagforeldra

M.a. er lagt til að dagforeldrar verði með öryggishnapp.
M.a. er lagt til að dagforeldrar verði með öryggishnapp. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mennta- og barnamálaráðuneytið leggur til, í drögum að reglugerð um breytingu á reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, að auknar kröfur verði gerðar á dagforeldra landsins hvað öryggi varðar. Drögin birtust í samráðsgátt stjórnvalda í dag.

Þannig er t.a.m. lagt til að krafa verði gerð um að allir dagforeldrar hafi neyðarhnapp.

„Er talið mikilvægt fyrir öryggi barna í daggæslu, sem í flestum tilvikum eru ómálga, að dagforeldrar geti með einföldum hætti kallað til aðstoð vegna óvæntra atvika, svo sem veikinda og slysa,“ segir í drögunum. 

Í annan stað er lagt til að ekki verði heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um að dagforeldrar hafi lokið námskeiði í skyndihjálp. 

Lengra rekstrarleyfi

Í þriðja lagi er lagt til að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afli sakarvottorða um umsækjendur og heimilismenn eldri en 15 ára – í stað þess að umsækjendur afli sjálfir slíkra vottorða fyrir heimilismenn eldri en 18 ára – og leggi fram í umsóknarferlinu.

Fleiri breytingar sem lagaðar eru til eru m.a. breytingar á gildistíma rekstrarleyfa. 

„Lagt er til að leyfi verði gefin út til allt að fimm ára í senn, en ekki fjögurra, en að gildistími leyfa verði samræmdur þegar tveir einstaklingar starfa saman að daggæslu,“ segir í drögunum.

mbl.is