Vill tilmæli vegna göngu barna að gosinu

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi flokks fólksins, vill að yfirvöld og umboðsmaður barna gefi út sérstök tilmæli til foreldra um að taka ekki börn sín að gosinu, hvorki ung né stálpuð.

„Ég er sálfræðingur og er umhugað um velferð barna eins og vonandi okkur öllum er. Ég vil þess vegna að að yfirvöld og umboðsmaður barna gefi út sérstök tilmæli til foreldra að þeir taki alvarlega þegar þeir eru beðnir um að fara ekki með ung börn sín að gosstöðvunum og að þau fari heldur ekki með stálpuð börn,“ segir Kolbrún í tilkynningu sem send var á mbl.is.

Leiðin sé erfið og börn geti lennt í vandræðum, líkt og almannavarnir hafa gefið út, en Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var daginn sem gosið braust út að ung börn ættu ekki erindi upp að gosstöðvum.

Minnir á tilkynningarskylduna

Þá minnir Kolbrún á tilkynningarskyldu 16. greinar barnaverndarlaga þar sem kveðið er á um að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar hafi þeir átæðu til að ætla að barni sé stefnt í hættu.

„Dæmi eru um að foreldrar hafi farið með börn sín í ferð að gosstöðvunum og hafa börnin orðið örmagna,“ segir Kolbrún en í gær voru fluttar fréttir af því að tvö börn á leikskólaaldri hafi orðið fyrir ofkælingu við gosstöðvarnar. Börnin höfðu verið á göngu með foreldrum sínum sem einnig voru á barmi örmögnunar.

Tíu ferðamönnum var bjargað við gosstöðvarnar í dag, sem þó voru lokaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert