10 myndir sem eru ekki til tilnefndar á hátíðinni

Skjáskot úr senu í kvikmyndinni Draumórar sem er ekki til. …
Skjáskot úr senu í kvikmyndinni Draumórar sem er ekki til. Frá vinstri: Berglind Alda Ástþórsdóttir, Katla Þórudóttir Njálsdóttir, Kolbeinn Sveinsson og Birta Sólveig Söring Þórisdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Rauði dregillinn verður dreginn fram á fimmtudaginn fyrir kvikmyndahátíð fyrir kvikmyndir sem eru ekki til. Kvikmyndahátíðin heitir Strandgate film festival og hefst í Bæjarbíói við Strandgötu í Hafnarfirði klukkan átta á fimmtudagskvöldið. Allir þeir sem eru tilnefndir til verðlauna á kvikmyndahátíðinni eru ekki raunverulegar persónur heldur hugarsmíð listahóps.

Listahópurinn er hluti af skapandi sumarstörfum í Hafnarfirði og samanstendur af fjórum einstaklingum en það eru Berglind Alda Ástþórsdóttir, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, Katla Þórudóttir Njálsdóttir og Kolbeinn Sveinsson. Þau eru öll ungir listamenn og athafnamenn.

Hópurinn hvetur fólk til að mæta en aðgangur á hátíðina er ókeypis.  

Rosa mikið af gráti og öskri

Katla Njáls segir í samtali við mbl.is að hópurinn sé búinn að vinna hörðum höndum í sumar við að taka upp stutt myndbrot til að geta skapað þá blekkingu að um raunverulegar myndir séu að ræða. 

Að sögn Kötlu bjó hópurinn til tíu kvikmyndir en á kvikmyndahátíðinni verða sýnd stutt brot úr öllum myndunum. Dæmi um myndir sem hópurinn útbjó fyrir hátíðina eru: Jeg heter Lina, Ekkjan, Blesi og lesbían, Draumórar og Hefnandinn 4: hinsta hefnd Hefnandans.

„Við erum að setja upp kvikmyndahátíð sem er í raun gjörningur með myndbandsverkum. Þetta er kvikmyndahátíð fyrir kvikmyndir sem eru ekki til og með fólki sem er ekki til. Við vonum að öðru fólki finnist þetta fyndið en við erum allavega búin að vera grenjandi úr hlátri þegar við höfum farið yfir það sem við erum búin að taka upp.“

Katla tekur fram að kvikmyndirnar sem þau bjuggu til séu í raun gerðar til að gera grín að staðalímyndun úr íslenskri kvikmyndagerð. „Með þessum myndum erum við að gera grín að staðalímynd íslenskra kvikmynda. Við erum að gera grín að þessu dæmigerða, við erum með unglingsstráka í tilvistarkreppu og það er rosa mikið af gráti og öskri. Allt grátt og mikið volæði.“

Katla Þórudóttir Njálsdóttir í kvikmyndinni Blesi og lesbían.
Katla Þórudóttir Njálsdóttir í kvikmyndinni Blesi og lesbían. Ljósmynd/Aðsend

Gefa sjálfum sér verðlaun

Hún tekur fram að þau fjögur hafi unnið alla vinnuna við kvikmyndirnar og bendir á að þeir sem eru tilnefndir til verðlauna fyrir kvikmyndirnar, séu persónur og karakterar sem þau hafi skapað. 

„Við gerum allt. Við erum að leika í myndunum sem við skrifuðum og erum líka kynnarnir og gefum verðlaun og gefum í rauninni okkur sjálfum verðlaun.“ Að sögn Kötlu eru verðlaunin einkar vegleg, en stytta í stíl við Óskarsverðlaunin verður veitt fyrir hvern verðlaunaflokk.

Hún segir að þau séu í raun búin að búa til hliðarraunveruleika þar sem persónur skapaðar af þeim eru stórstjörnur á Íslandi og ráða öllu í kvikmyndagerð hér á landi.

Uppgötvuðu að þau kynnu ekki að taka upp

Katla segir að þau hafi fljótlega áttað sig á því þegar að verkefnið var hafið að þótt að þau væru öll ágætis leikarar, þá kynni ekkert þeirra að taka upp né klippa. Segir hún því það heppilegt að Ágúst Örn Börgesson Wigum hafi verið laus til að stökkva inn í og hjálpa þeim með það en hann er heiðursmeðlimur í hópnum.

Þau ætluðu fyrst að rukka inn á hátíðina til að geta borgað Ágústi laun fyrir vinnuna sína en á síðustu stundu fengu þau menningar- og viðburðarstyrk frá Hafnarfirði fyrir hátíðina. Geta þau því boðið fólki frítt á kvikmyndahátíðina.

Hægt er tryggja sér miða að kostnaðarlausu á hátíðina inn á vefsíðu Tix.

Jeg heter Lina
Jeg heter Lina Ljósmynd/Aðsend
Kolbeinn Sveinsson fer á kostum í myndinni Blesi og lesbían.
Kolbeinn Sveinsson fer á kostum í myndinni Blesi og lesbían. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert