Að óbreyttu opna gosstöðvarnar klukkan 10

Gosstöðvarnar gætu opnað í dag en gul veðurviðvörun er enn …
Gosstöðvarnar gætu opnað í dag en gul veðurviðvörun er enn í gildi. mbl.is/Hákon

Gul veðurviðvörun gildir á Suðurlandi til hádegis í dag. Lokað hefur verið við gosstöðvarnar í Meradölum frá því á sunnudag, en að óbreyttu munu þær opna klukkan 10 í dag. Almannavarnir munu fara yfir stöðuna á eftir.

Áfram er spáð rigningu en í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands segir:

„Ekkert lát er á lægðaganginum í kringum landið og fara flestar lægðirnar til norðurs fyrir vestan land og mun því lítið lát verða á vætutíðinni um landið sunnan- og vestanvert, en samt sem áður mun restin af landinu fá vætu líka, en oftast í mun minni skömmtum.“

Í hugleiðingunum segir að með suðlægum áttum komi líka mun mildara loft og er loftmassinn svo hlýr að útlit er fyrir að það rigni á hæstu jöklum líka. Oftast snjóar þar þegar skil ganga yfir.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert