„Ekki rétt að ekkert svigrúm sé til launahækkana“

„Ég er fullkomlega ósammála því að ekkert svigrúm sé til staðar til launahækkana og það fer líka gegn öllum okkar greiningum. Það er bara ekki rétt,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, um skýrslu sem Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, vann að beiðni forsætisráðuneytisins.

Skýrslan fjallar um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga. Skýrslan var gefin út í júní en birt opinberlega þann 5. ágúst síðastliðinn.

Metum það sem svo að svigrúm sé til staðar til launahækkana

Í skýrsl­unni bend­ir Katrín á að tak­markað svig­rúm til launa­hækk­ana kalli á að annarra leiða sé leitað til að bæta stöðu fólks á vinnu­markaði og huga þurfi að sér­tæk­um aðgerðum sem snúa ekki síst að þeim er verst standa.

„Það er auðvitað alltaf verið að reyna að finna allar leiðir til að bæta stöðu fólks á vinnumarkaði, hvort sem það er í gegnum húsnæðismálin, skattkerfið, tilfærslukerfið eða hvað,“ segir Drífa.

„Hins vegar hefur launahlutfall fyrirtækja farið lækkandi síðustu árin. Margar atvinnugreinar standa mjög vel að vígi og koma vel út úr Covid-faraldrinum svo við metum það sem svo að það sé svigrúm til staðar til launahækkana.“

Villandi framsetning að setja upphafspunktinn við 2008

Drífa segir að framsetningin í skýrslunni sé villandi.

„Upphafspunkturinn er alltaf 2008 í öllum gröfum í skýrslunni. Árið 2008 var fólk nýbúið að taka á sig mikið högg í kaupmætti svo það verður alltaf hærri lína í kaupmáttarreikningi heldur en ef þú lítur 30 ár aftur í tímann sem er beinlínis villandi framsetning,“ segir Drífa.

„Þetta er sett fram svona til að villa um. Ef þú ferð 30 ár aftur í tímann eða svo þá sérðu að laun fólks hafa haldið í við framleiðniaukningu. Það er því engum í hag að búa til villandi myndir í aðdraganda kjarasamninga,“ bætir Drífa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert