Fólki með fötlun vísað frá

„Þetta er bara öm­ur­leg staða,“ seg­ir Unn­ur Helga í sam­tali …
„Þetta er bara öm­ur­leg staða,“ seg­ir Unn­ur Helga í sam­tali við mbl.is. mbl.is/Arnþór Birkisson

Dæmi eru um að fólki með fötlun sé vísað frá þegar það leitar sér geðheilbrigðisþjónustu. Þetta getur orðið til þess að vægur geðheilbrigðisvandi verði alvarlegur með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið.

Þetta segir Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar. Hún segir nánast enga geðheilbrigðisþjónustu standa til boða fyrir fólk með þroskahamlanir.

„Fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og einhverft fólk fær ekki aðgang að geðheilbrigðisþjónustu. Þetta er bara ömurleg staða,“ segir Unnur Helga í samtali við mbl.is.

Dýrara fyrir heilbrigðiskerfið

Fyrir um ári síðan var geðheilbrigðisteymi komið á fót hjá heilsugæslunni sem ætlað er fólki með greinda þroskahömlun og alvarlegan núverandi geðrænan vanda, eins og fram kom í viðtali við Írisi Björk Indriðadóttur – sálfræðing hjá teyminu – á mbl.is um síðustu helgi. Biðlistar eftir þjónustu eru orðnir langir og markhópur teymisins er í raun einungis sá sem á við alvarlegasta vandann að stríða. Enn minna er því í boði fyrir einstaklinga með þroskahamlanir sem glíma við vægari vanda, t.d. vægan kvíða eða þunglyndi.

„Ef ekki er hægt að takast á við vandann í byrjun verður hann stærri og erfiðara að leysa hann,“ segir Unnur Helga.  „Ég myndi segja að það væri miklu dýrara fyrir heilbrigðiskerfið þegar vandinn verður flóknari.“

„Ef ekki er hægt að takast á við vandann í …
„Ef ekki er hægt að takast á við vandann í byrjun verður hann stærri og erfiðara að leysa hann,“ segir Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar. aðsend

Kalla eftir þjónustumiðstöð fyrir fólk með þroskahömlun

Unnur Helga segir að styrkja þurfi heilsugæslu landsins til þess að starfsfólk þar geti sinnt geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahamlanir og einhverfu.

„Við viljum sjá að það verði sett á stofn þjónustumiðstöð fyrir fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Greiningarstöðin þjónustar fólk upp að 18 ára aldri. Eftir þann aldur er ekkert í boði. Það myndi leysa vandann ef þessi þjónustumiðstöð yrði sett á laggirnar vegna þess að þessir einstaklingar geta þurft á alls konar læknisaðstoð að halda, sem og félagsráðgjöf og sálfræðiaðstoð. Þar væri þá hægt að hafa eitthvert öflugt sálfræðingateymi sem gæti þá gefið almennar ráðleggingar út í geðheilbrigðisteymi allra heilsugæslustöðvanna, svo það sé þjónusta á öllu landinu líka,“ segir Unnur Helga.

Nú er í vinnslu stefna um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

„Við skrifuðum umsögn um þessa stefnu með Einhverfusamtökunum. Þær athugasemdir sem við komum með voru teknar til greina og það kemur því fram í stefnunni að þjónustan eigi að vera fyrir alla, án aðgreiningar. Við vonum svo sannarlega að því verði fylgt eftir en geðheilbrigðisþjónustan í heild sinni er í lamasessi,“ segir Unnur Helga.

Krossleggja fingur

Hún segir erfitt að kortleggja það hve stór vandinn er þar sem gögn og tölulegar upplýsingar skorti. En „við vitum svo sannarlega að vandinn er til staðar.“

Spurð hvort það kveiki hjá Þroskahjálp von um breytingar á stöðu mála að í fyrrnefndri geðheilbrigðisstefnu komi fram að geðheilbrigðisþjónusta eigi að standa öllum til boða, eins og Þroskahjálp og Einhverfusamtökin kölluðu eftir, segir Unnur Helga:

„Í rauninni vekur það væntingar um að það eigi að taka tillit til allra og að fólki eigi ekki að vera synjað um þjónustu, þrátt fyrir fötlun. Maður krossleggur fingur og vonar svo sannarlega að þetta gangi eftir.“

mbl.is