Kallar eftir fordæmingu af hálfu Þórdísar

Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína.
Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína. mbl.is

Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína, fordæmir stríðsaðgerðir Ísraels gegn Palestínumönnum á Gaza-svæðinu og skorar jafnframt á utanríkisráðherra að gera slíkt hið sama.

„Það er mikilvægt að utanríkisráðherra fordæmi þessar loftárásir á íbúa á Gaza-svæðinu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Palestínsk stelpa hlaut alvarlega áverka eftir að Ísraelsher hóf skotárás …
Palestínsk stelpa hlaut alvarlega áverka eftir að Ísraelsher hóf skotárás sína á Gaza-svæðið. AFP

Börn og aðrir myrt

Vopnahlé tók gildi á sunnudagskvöld á milli Íslömsku andspyrnuhreyfingarinnar og Ísraels eftir þriggja daga árásir Ísraelshers á Gaza-svæðinu. Sveinn segir það vera fagnaðarefni, eins langt og það nær.

„En þessar árásir Ísraels á óbreytta borgara á Gaza-svæðinu hafa staðið yfir með vissu millibili árum saman. Sérstaklega eftir að Ísraelsstjórn ákvað að draga landtökubyggðir burt frá Gaza-svæðinu. Þeir gerðu það án nokkurs samráðs við palestínsk yfirvöld.“

Að sögn hans hafa tveir leiðtogar íslömsku andspyrnuhreyfingarinnar verið teknir af lífi í eldflaugaárásum og fjöldi annarra féll og særðist í árás Ísraelshers í síðustu viku. Fimmtán börn voru myrt í þessum árásum en alls 44 létu lífið, tala sem síðan hefur hækkað í 46 manns, þar af eitt barn til viðbótar. Margir eru mjög alvarlega særðir á sjúkrahúsum sem eru illa búin sjúkragögnum vegna innilokunar Gaza.

Palestínumenn leita þriggja einstaklinga sem voru í byggingu sem varð …
Palestínumenn leita þriggja einstaklinga sem voru í byggingu sem varð fyrir skotárás Ísraelshers. AFP

Sveinn segir að ekki sé liðið nema rúmt ár eða 15 mánuðir frá síðustu skotárás Ísraelshers á Gaza-svæðið. Þá voru 67 börn myrt á 11 dögum en í gegndarlausum árásum í júlí og ágúst 2014 voru 551 börn myrt. Þá týndu um 2300 manns lífi.

„Það er langt í land með að íbúarnir á Gaza-svæðinu hafi náð sér eftir árásirnar í fyrra. Missir barna og heilu fjölskyldnanna verður seint bættur, eyðilegging á heimilum fólks sem sprengd hafa verið í loft upp er gífurleg og margir eru heimilislausir vegna þess. Þá eru sálrænar afleiðingar ótaldar, ekki síst fyrir börnin, að búa við sprengjuárásir á heimili sínu eða skóla og ógnina um slíkt sem alltaf er yfirvofandi.“

Viðurkenna ekki sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna

Sveinn segir að allt frá því að Hamas-samtökin unnu mikinn kosningasigur á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum árið 2006 hafi yfirvöld í Ísrael stillt samtökunum upp sem óvini. Um það leyti sem Hamas-samtökin, ásamt Fatah-hreyfingunni og minni flokkunum á löggjafarþingi Palestínumanna, fóru fram á að mynduð yrði þjóðstjórn, lagðist Ísrael, Bandaríkjastjórn og í raun Evrópusambandið á þá sveif að viðurkenna ekki þessi úrslit í framgengnum kosningum.

Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína, segir …
Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína, segir að ómögulegt sé að líta á aðgerðir Ísraels sem eitthvað annað en stríðsglæp. AFP/Mohammed Abed

Við tók endalaus stjórnarbarátta og ósamkomulag milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar, þar sem Bandaríkjamenn báru vopn og fé á Fatah-hreyfinguna og hvöttu þau til að ganga frá Hamas-samtökunum. Svo varð ekki, þar sem samtökin hafa verið við völd í raun á þessu landsvæði í Palestínu síðan.  

Palestínumenn mótmæla árás Ísraels.
Palestínumenn mótmæla árás Ísraels. AFP

„Þetta hefur skapað mikla erfiðleika, og þetta framferði, að viðurkenna ekki kosningaúrslit, hefur þýtt það, og jafngildir því, að viðurkenna ekki sjálfsákvörðunarrétt þessarar þjóðar. Allt frá þessum tíma hafa ísraelsk yfirvöld stillt Hamas-samtökunum upp sem óvini en það gerðist þó ekki í þessum átökum sem eiga sér stað nú.

Hamas áttu engan þátt í þeim og tóku ekki þátt í þeim. Það vekur í raun athygli eða jafnvel furðu að þau skuli ekki hafa, nema bara í orði, staðið við hlið baráttufélaganna í Íslömsku andspyrnuhreyfingunni. En á hinn bóginn má þakka fyrir það að það hafi ekki gerst því þá hefði þetta orðið miklu verra og miklu blóðugra stríð, því að af nógu er að taka í vopnabúri Ísraels, sem er eitt langöflugasta herveldi heims.“

Nauðsynlegt að slá grasið af og til

Sveinn segir að ómögulegt sé að líta á athæfi yfirvalda í Ísrael sem eitthvað annað en stríðsglæp: Að skjóta eldflaugum á heimili fólks og ekkert tillit sé tekið til barna, gamalmenna og annarra heimilismanna. Að hans sögn láta ótal manns lífið í þessum árásum, sem er ekkert annað en ólögmætar aftökur.

Fjöldi Palestínumanna létu lífið í skotárásum Ísraels á Gaza-svæðinu í …
Fjöldi Palestínumanna létu lífið í skotárásum Ísraels á Gaza-svæðinu í síðustu viku. AFP

„Það er ómögulegt að líta á þetta sem eitthvað annað en stríðsglæpi, að ráðast inn á heimili á herteknu svæði sem er á ábyrgð hernámsveldisins samkvæmt alþjóðalögum, og þeim ber skylda til að tryggja öryggi íbúa þar.“

Þá gagnrýnir Sveinn árásina þar sem Ísrael hefur borið fyrir sig að um forvarnaraðgerðir sé að ræða, vegna meintra hótana af hálfu Íslömsku hreyfingarinnar um aðgerðir.

„Það er þetta hræðilega orðalag, sem maður hefur heyrt frá Ísrael, að stríðsherrarnir þar telja nauðsynlegt að slá grasið af og til. Það er svo hryllilega ógeðsleg hugsunin á bak við þetta, en hugsunin er jú sú að með þessu móti sé hægt að lama baráttuþrek Palestínumanna, að hræða þá og kúga endalaust, þannig að tilveran verði óbærileg.“

AFP

Ísland verður að láta í sér heyra

Sveinn minnir á að Gaza-svæðið er hluti af Palestínu. Íslendingar hafa viðurkennt sjálfstæði og fullveldi ríkisins innan landamæranna frá 1949 og eins og þau voru 1967 þegar Ísrael lagði alla Palestínu undir sig. Hann skorar á utanríkisráðherra og ríkisstjórnina að fordæma þessar árásir Ísraelsmanna.

„Það skiptir verulegu máli að Íslendingar, eins og aðrar þjóðir, láti nú heyra frá sér, og ekki síst við sem erum í mjög góðu sambandi bæði við Ísrael og Palestínu. Ísraelsstjórn má ekki komast upp með slíkar árásir á nágranna sína, óátalið og refsilaust. Slíkt býður hættunni heim.

Það verður að fordæma framferði sem jafngildir stríðsglæp, hvar sem það á sér stað. Þá er óásættanlegt að ríki eins og Bandaríkin og Bretland, styðji slíkar aðgerðir Ísraelsstjórnar, með því að vísa til réttar til sjálfsvarnar.

Hverjum manni er ljós gífurlegur aflsmunur aðila, þar sem annars vegar er hernaðarveldi Ísraels á heimsmælikvarða með fullkomnustu leyniþjónustu í heimi, en hins vegar smáflokkur í Palestínu, sem naut ekki einu sinni stuðnings Hamas-samtakanna, þótt á Gaza væri ráðist. Það sýndi sig líka enn einu sinni að Ísrael ræður yfir lífi og dauða hvers einasta Palestínumanns, og getur tekið leiðtoga þeirra af lífi hvar og hvenær sem er.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Ljósmynd/ Utanríkisráðuneyti Finnlands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert