Ómögulegt að fólk í sjálfboðavinnu standi vaktina

Björgunarsveitir hafa staðið vaktina við gosstöðvarnar í Meradölum síðustu daga.
Björgunarsveitir hafa staðið vaktina við gosstöðvarnar í Meradölum síðustu daga. mbl.is/Hákon Pálsson

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir ómögulegt að björgunarsveitir í sjálfboðaliðavinnu víða af landinu séu aftur að standa vaktina við eldgos á Reykjanesskaga mánuðum saman. Vonar hann að málið verði leyst sem allra fyrst og bendir hann m.a. á að þetta sé vakt sem landverðir gætu sinnt.

„Björgunarsveitirnar munu eftir sem áður koma að björgunarstörfum en ekki vera með stýringu og almenna landvörslu á svæðinu. Það er bara ekki forsvaranlegt að ætlast til þess.

Þess vegna er verið að tala um að fá í þetta aðra aðila og kostnaður við það yrði þá væntanlega bara greiddur úr ríkissjóði,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.

Sveitir standa vaktina næstu daga

Í samtali við mbl.is á miðvikudaginn sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, að björgunarsveitir væru ekki varanleg lausn þegar kæmi að því að sinna gæslu á gossvæðinu. Unnið væri að því að finna lausn á þeim málum.

Eins og staðan er núna munu þó björgunarsveitir standa vaktina næstu daga. 

„Þeir hafa alveg dekkað þetta síðustu sólarhringa en vonandi verður það fyrr en seinna að það komi að þessu landverðir,“ segir Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert