Sumarið fjarri því búið

Veðurfræðingurinn Sig­urður Þ. Ragn­ars­son, bet­ur þekkt­ur sem Siggi storm­ur.
Veðurfræðingurinn Sig­urður Þ. Ragn­ars­son, bet­ur þekkt­ur sem Siggi storm­ur. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Sig­urður Þ. Ragn­ars­son veður­fræðing­ur, bet­ur þekkt­ur sem Siggi storm­ur, segir í samtali við mbl.is að nóg sé eftir af sumrinu á Íslandi. Áður hafði hann spáð því að ágústmánuður yrði lík­leg­ast af­burðagóður veðurfars­lega. 

„Nú eru liðnir níu dagar af ágúst og von að fólk spyrji. Veðrið er búið að vera í blautari kantinum, en við megum ekki gleyma því að núna eru allar hitatölur á bilinu 12 til 20 stig. Í júlímánuði þegar hann fór úr norðanáttinni sem hékk í alveg eins og hundur á roði voru eins stafs hitatölur daglegt brauð á norðanverðu landinu,“ segir Sigurður.

Hann segir að það hafi orðið algjör umpólun í veðri á Norðurlandi, sé ágúst borinn saman við júlí.

„Það fór í 23 stig í Ásbyrgi í fyrradag og í 21 stig á Húsavík og 20 gráður í Vopnafirði. Þessi umpólun sem ég var að boða er að nokkru að rætast fyrir landið, í það minnsta er hlýrra. Bjartviðrisspáin er ekki farin að sýna sig enn þá.“

Fékk kuldahroll við að skoða kortin

Sigurður taldi að ágústmánuður gæti orðið spennandi eftir „medium rare“ eða „rare“ sumar eins og hann kallaði það. Nú sé farið að hitna aðeins í kolunum þrátt fyrir vætu.

„Það er ekki bara búið að vera skortur á stáli heldur líka á hlýjum dögum á Íslandi. Ég er ekkert ósáttur við það sem fram undan er en það er ekkert endalaust 20 gráður fram undan. Á tímabili leit út fyrir að 20 gráður sæjust ekkert í sumar. Maður var kominn með kuldahroll við það að horfa á kortin.“

„Það breytir því ekki að spárnar um að ágúst yrði úrkomulítill, þær fara ekki vel af stað. Það má vel vera að þær endi í ruslafötunni,“ segir Sigurður.

„Ég sé samt að það eru prýðisdagar framundan af og til. Þeir séu ágætlega hlýir. Sumarið er sko fjarri því búið.“

mbl.is