„Þetta er stórkostlegur misskilningur“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir það vera stórkostlegan misskilning að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sé að brjóta á Reykvíkingum. Mögulega sé tilefni til að endurskoða samkomulagið um sjóðinn, sem var gert árið 1996, enda margt búið að breytast á síðustu árum. Hann telur þó eðlilegra að ræða málin frekar en að standa í málaferlum og halda úti „einhliða ágreiningi og áróðri“.

Sara Björg Sigurðardóttir, formaður íbúaráðs í Breiðholti og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gagnrýndi á dögunum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en hún taldi úthlutunarreglurnar mismuna börnum í Reykjavík þar sem borgin væri eina sveitarfélagið á landinu þar sem ekki væri greitt sérstakt grunnskólaframlag með börnum.

Þá væri heldur ekki greitt framlag með börnum með erlendan bakgrunn þrátt fyrir að þeim hefði fjölgað um 78% í grunnskólum í Reykjavík frá árinu 2016. Taldi hún fyrirkomulagið ósanngjarnt og ýta undir tvískiptingu samfélagsins.

Á síðasta ári höfðaði Reykjavíkurborg dómsmál gegn ríkinu vegna jöfnunarframlaga er varða rekstur grunnskóla. Er krafa borgarinnar sú að tryggð verði full fjármögnun á rekstri grunnskóla og að borgin njóti framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til jafns við önnur sveitarfélög. Þá varðar hluti kröfunnar íslenskukennslu erlendra barna en borgin fær engin framlög vegna þess verkefnis.

Eðlilegra að ræða málin

„Þetta er stórkostlegur misskilningur, vegna þess að þegar samkomulagið var gert á sínum tíma um yfirfærslu grunnskólans, þá var útsvarsprósentan stillt þannig að Reykjavíkurborg fengi nóg til þess að reka sinn skóla og síðan er jöfnunarsjóður [...] notaður til þess að jafna stöðu þeirra skóla sem væru dýrari og væru með minni tekjur en Reykjavíkurborg.

Síðan getur vel verið að á tuttugu til tuttugu og fimm árum, að hlutir hafi þróast á þann veg að það sé orðið óeðlilega hátt hlutfall af börnum sem eru með íslensku sem annað móðurmál og þá væri miklu eðlilegra að taka samtal við ríkið um slíkt heldur en að vera með einhliða ágreining og áróður um að jöfnunarsjóður sé að brjóta á Reykvíkingum, sem hann er auðvitað ekki. Hann er að vinna samkvæmt samkomulaginu sem var gert árið 1996,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

En ef samkomulagið var gert 1996, er þá ekki mögulega tilefni til að endurskoða það? 

„Það er alltaf möguleiki á að setjast niður og tala saman. Ég styð það frekar en að rjúka til og fara í málaferli og saka menn um að það sé verið að brjóta á rétti einhverra.“

Sigurður Ingi segir auðvelt að hefja það samtal. Það þyrfti einfaldlega að taka bara upp símann eða senda bréf.

„Ég hef reyndar boðið Reykjavíkurborg slíkt.“

Og hverjar voru viðtökurnar?

„Ja, við vorum með hóp að störfum en svo hélt bara málaferlið áfram.“

mbl.is