Aðrar leiðir í boði en nafnlaunahækkanir

Dr. Katrín Ólafsdóttir á fundinum í Iðnó í dag.
Dr. Katrín Ólafsdóttir á fundinum í Iðnó í dag. mbl.is/Eggert

Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði í Háskólann í Reykjavík, segir að hægt sé að fara aðrar leiðir til að bæta stöðu fólks á vinnu­markaði en að semja um nafn­launa­hækk­anir sem minnk­a óðum í meiri verðbólgu.

„Þar getur ríkisstjórnin komið til aðstoðar, til dæmis með barnabótum, vaxtabótum eða einhverju slíku. Svo er hægt að leggjast í aðgerðir sem halda aftur af verðbólgu.“

Í skýrslu sem Katrín skrifaði að beiðni forsætisráðuneytisins um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga kemur fram að takmarkað svigrúm sé til launahækkana og að mik­il­vægt sé að kaup­mátt­ar­aukn­ing síðustu ára týn­ist ekki á næsta samn­ings­tíma­bili.

Aftast í skýrslunni leggur Katrín svo áherslu á einstök atriði sem lúta að öðru en beinum launahækkunum, þar á meðal styttingu vinnuvikunnar, aðferðum til að koma í veg fyrir kulnun í starfi og að þeir sem upplifi einkenni kulnunar fái viðeigandi aðstoð svo eitthvað sé nefnt.

Launahlutfall fyrirtækja farið lækkandi frá 2018

Drífa Snædal, sem sagði af sér sem forseti Alþýðusambands Íslands fyrr í dag, gagnrýndi niðurstöður skýrslunnar í gær og sagði það ekki rétt að ekkert svigrúm væri til launahækkana í ljósi þess að launa­hlut­fall fyr­ir­tækja hafi farið lækk­andi síðustu árin og að margar atvinnugreinar standi vel að vígi eftir Covid-faraldurinn.

Katrín seg­ir í sam­tali við mbl.is að sam­kvæmt reikn­ing­um hins op­in­bera hafi launa­hlut­fall fyr­ir­tækja farið hækk­andi frá árinu 2009 til ársins 2018 en hafi vissulega lækkað síðan.

„Launa­hlut­fallið hef­ur lækkað frá 2018 en er enn yfir lang­tímameðaltali,“ seg­ir Katrín.

Hér má sjá launahlutfall fyrirtækja frá 2000-2021.
Hér má sjá launahlutfall fyrirtækja frá 2000-2021.

Ekki hægt að fara lengra aftur en 2008 

Drífa benti þá á að fram­setn­ing­in í skýrsl­unni væri vill­andi þar sem upp­hafspunkt­ur­inn í gröf­um í upp­hafi skýrsl­unn­ar sé alltaf 2008, þar sem fólk var þá ný­búið að taka mikið högg í kaup­mætti vegna efnahagshrunsins.

Katrín seg­ir að það hafi verið lagt upp með það frá upp­hafi að hafa lang­tíma­sýn í skýrsl­unni. „Þetta er eins langt aft­ur og hægt var að fara með sam­bæri­leg­ar töl­ur.“

En gátuð þið ekki farið aft­ur til árs­ins 2006?

„Nei, Hag­stof­an er bara með sam­bæri­leg gögn frá 2008. Ef þú ferð aft­ur fyr­ir það þá ertu ekki með sam­bæri­leg gögn. Mér var lagt upp með að skoða þessi lang­tíma­sam­bönd en ein­hverstaðar í skýrsl­unni tek ég fyr­ir mis­mun­andi tíma­punkta og ræði hver mun­ur­inn er,“ bæt­ir Katrín við.

mbl.is