„Ef sex ára getur það þá getur þú það“

„Já, ef sex ára getur það þá getur þú það alveg,“ sagði hinn ungi Maron Rafn Bjarkason, spurður hvort blaðamaður gæti hoppað 14 metra niður í sjóinn fyrir neðan.

Það hefur Maron sjálfur gert í allt sumar en hann er tíður gestur í Hopplandi á Akranesi. Þar er hægt að hoppa úr ýmissi hæð í sjóinn og er þetta annað sumarið sem slíkt er hægt. Síðast var Hopplandið í Grafarvogi en nú á Akranesi.

„Ég skal sýna ykkur hvernig á að gera þetta,“ sagði …
„Ég skal sýna ykkur hvernig á að gera þetta,“ sagði hinn tíu ára Benjamín. mbl.is/Ágúst Óliver

„Sumarið í fyrra var svolítið til þess að prófa þetta og þá vorum við í bænum en núna er þetta komið til að vera,“ sagði Jódís Lilja Jakobsdóttir þegar mbl.is bar að garði, en hún rekur Hoppland ásamt kærasta sínum, Konna Gotta.

Alltaf gaman hjá Jósu pósu og Konna Gotta

„Þú ætlar að hoppa er það ekki?“ spurði Konni blaðamann og bætti við að þegar væri búið að taka frá blautbúning inni í skúr þegar lítið varð um svör.

Hinn lofthræddi blaðamaður lét undan og fór upp á topp í 14 metra hæð en hægt er að sjá hér í myndskeiðinu fyrir ofan hvernig fór.

„Það er alltaf gaman hjá Jósu pósu og Konna Gotta,“ sagði hinn tíu ára gamli Benjamín Örn Birkisson, áður en hann sýndi síðan listir sínar, sem hann hefur æft í allt sumar.

„Ég skal sýna ykkur hvernig á að gera þetta.“

Hægt er að sjá hinn lofthrædda blaðamann gera sig að …
Hægt er að sjá hinn lofthrædda blaðamann gera sig að fífli hér efst í fréttinni. mbl.is/Ágúst Oliver
mbl.is