Erfitt að standa í lappirnar í gær

Björgunarsveitarfólk átti erfitt með að standa í lappirnar í gær.
Björgunarsveitarfólk átti erfitt með að standa í lappirnar í gær. mbl.is/Hákon Pálsson

Búið er að opna fyrir aðgengi að gosstöðvunum í Meradölum fyrir þá einstaklinga sem hafa náð 12 ára aldri. Veðurskilyrði hafa mikið breyst frá því í gær en þá var hvassviðri svo mikið að björgunarsveitarfólk átti í erfiðleikum með að standa í lappirnar, að sögn Boga Adolfssonar, formanns björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.

Þá er skyggnið orðið mun betra í Meradölum og farið að sjást til gosstöðvanna úr vefmyndavélum, meðal annars. Í gær var skyggnið innan við fimm metra og átti björgunarsveitarfólk í vandræðum með að laga gönguleiðina að gosinu og koma stikum niður, að sögn Boga.

Lögreglan mætt til að framfylgja banninu

„Munurinn er mikill. Nú er hægt að standa í lappirnar og sjá hvert þú ert að fara. Í gær var ekki hægt að standa í lappirnar. Þannig þetta er svart og hvítt, þó veðrið sé enn þá grátt,“ segir Bogi.

Þá segir hann ekki tilmæli til fólks að koma ekki með börn undir 12 ára með sér, heldur sé það alfarið bannað. Lögreglan sé nú einnig komin að gosstöðvunum til að sjá til þess að þessu verði framfylgt.

„Lögreglustjórinn tók þessa ákvörðun og við stöndum bara bakvið hana,“ segir Bogi og bætir síðan við:

„En svo náttúrulega seinna meir verður þetta kannski endurskoðað en einhvers staðar verðum við að byrja.“

Þreytan hófst í fyrra

Aðspurður segir Bogi smá þreytu komna í björgunarsveitarfólk. Þreytu sem megi rekja til eldgossins í Geldingadölum í fyrra. 

Þá auðveldar það ekki vinnuna núna að fleiri erlendir ferðamenn eru staddir hér á landi samanborið við árið í fyrra. 

„Ég er farinn að fá fleiri erlend símtöl í símann hjá mér,“ segir Bogi og veltir því upp kíminn hvort ekki sé kominn tími til að breyta símanúmerinu. Segir hann ferðamenn aðallega vera að hringja til að spyrja hvort að aðgengi að gossvæðinu sé opið eður ei.

Kunnugleg andlit farin að sjást

Bogi er þó alls ekki neikvæður og segir enn þá stuð í hópnum, þrátt fyrir að álagið sé mikið.

„Þetta er svo öflugur og frábær mannskapur. Ekki bara hjá okkur heldur almennt hjá Landsbjörg. Allt baklandið sem er að koma inn, það er bara frábært að fá þetta. Núna erum við farin að tína af öllu landinu fólk. Það er munur að fá inn alla þessa snillinga.“

„Það er búið að opna vaktaskjalið á landsvísu. Þá fer maður að fá öll þessu kunnuglegu andlit. Björgunarsveitarstarf er fyrst og fremst félagsstarf og okkur finnst ekkert leiðinlegt að hittast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert