Foreldrum með börn yngri en 12 ára verði snúið við

Leiðin er sögð erfið yfirferðar.
Leiðin er sögð erfið yfirferðar. mbl.is/Ágúst Óliver

Foreldrum með börn yngri en 12 ára verður snúið frá leið A að gosstöðvunum af öryggisástæðum að svo stöddu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Ferðamönnum sem ætla að skoða eldgosið í Meradölum er þó ráðlagt að ganga gönguleið A en unnið hefur verið að lagfæringum á þeirri leið í nótt og enn er unnið að úrbótum.

Lágmark 5-6 klukkustunda ferðalag

Leiðin er sögð erfið yfirferðar en veður hefur skánað og er því ekki lengur ástæða til að halda lokun til streitu.

Lögreglan áætlar að ferðalagið taki að lágmarki 5 til 6 klukkustundir. Útsýnisstaður við enda gönguleiðar A liggur hátt yfir gossvæðinu en þar eru um það bil 600 metrar í gossprunguna sjálfa. Það taki göngumann tvær klukkustundir eða lengur að ganga að útsýnisstaðnum. Hækkun í landi sé um 300 metrar.

Gasmengunar geti orðið vart á gönguslóð og þá sérstaklega í nálægð við gosið. 

„Börn hafa minna þol gagnvart loftmengun og eru skilgreind sem viðkvæmur hópur. Þá er ekki ráðlegt að börn dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum,“ segir í tilkynningu lögreglu en þar er bent á upplýsingar á vef embættis landlæknis.

mbl.is