Mjög hvassir vindstrengir fyrir norðan og austan

Rigning eða skúrir verða í dag.
Rigning eða skúrir verða í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gul veðurviðvörun hefur verið í gildi frá miðnætti á Norðausturlandi og gildir fram á hádegi í dag. Vindur hefur verið heldur minni en spár gerðu ráð fyrir.

Þetta segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Vindur er búinn að vera ívið rólegri en spárnar gerðu ráð fyrir. Það eru 10-12 m/s víða og nær kannski ekki alveg í 15 m/s. Vestanáttin er svolítið snúin þarna út af Tröllaskaganum. Það geta myndast strengir sem geta verið erfiðir fyrir húsbíla og hjólhýsi sérstaklega,“ segir Óli Þór.

Hann segir að það ætti að vera gerlegt fyrir flesta að aka um fyrir norðaustan en það þurfi að fara mjög varlega.

„Þetta mun lagast núna í kringum hádegisbilið. Lægðin er að fara aðeins norðar og er með versta strenginn úti á sjó en ekki á landi.“

Suðvestanátt á morgun

í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði vestlæg átt í dag, víða strekkingsvindur en sums staðar mjög hvassir vindstrengir fyrir norðan og austan.

Rigning eða skúrir, en lengst af þurrt á Austurlandi og Austfjörðum. Þar má búast við hæstu hitatölum dagsins allt að 19 stigum. Annars staðar verður hiti á bilinu 8 til 14 stig.

Á morgun er spáð mun hægari suðvestanátt. Skúrir um landið sunnan- og vestanvert, en þurrt að kalla í öðrum landshlutum. Hiti á bilinu 10 til 17 stig, hlýjast á Austurlandi.

Veðurvefur mbl.is 

mbl.is