„Það sem fólk leyfir sér í samskiptum er rosalegt“

Drífa segist ekki vita hvað taki við hjá henni núna.
Drífa segist ekki vita hvað taki við hjá henni núna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var hreinlegast að gera þetta þegar ég var búin að ákveða að ég ætlaði ekki að halda áfram. Ég tel að mér hafi verið gert illmögulegt að sinna störfum mínum sem forseti Alþýðusambandsins,“ segir Drífa Snædal, fráfarandi forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um ástæðu uppsagnar sinnar í samtali við mbl.is.

Drífa tilkynnti um afsögn sína fyrr í dag. Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son, formaður Rafiðnaðarsam­bands Íslands og fyrsti vara­for­seti Alþýðusam­bands Íslands, mun taka við embætti hennar fram að næsta þingi sam­bands­ins.

Andstyggilegheit og róttækni fari ekki saman

Drífa segir erfið samskipti innan verkalýðshreyfingarinnar hafa haft mikil áhrif á ákvörðun hennar um að bjóða sig ekki aftur fram. Telur framgöngu annarra verkalýðsforingja draga úr trúverðugleika baráttunnar. 

„Það sem fólk leyfir sér í samskiptum er rosalegt og að einhverju leyti er maður orðinn samdauna því og hættur að sjá hvað það er klikkað. Það er einhver misskilningur í gangi um að ef að þú ert eins andstyggilegur og mögulegt er þá ertu líka eins róttækur og mögulegt er. Það er ekki endilega minn stíll,“ segir Drífa.

„Ég tel það ekki launafólki á Íslandi til framdráttar að fólk leyfi sér hvað sem er í samskiptum við aðra, og síst af öllu félaga sína.“

Þing ASÍ verður haldið í byrjun október, en þar er forysta sambandsins kjörin. Spurð hvers vegna hún kláraði ekki kjörtímabil sitt segir Drífa:

„Ég hefði getað komið með yfirlýsingu um að ég myndi ekki halda áfram, og það var kallað eftir því að ég kæmi með einhverskonar yfirlýsingu, en þá er ég í raun umboðslaus og véfengd í tvo mánuði fram að þinginu. Það er ekki óskastaða fyrir neinn.“

Óþol fyrir málamiðlunum

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, fagnar afsögn Drífu og segir hana tímabæra. Þá sakar hún Drífu um að hafa ekki verið tilbúna til að taka slaginn fyrir launafólk.

Drífa vísar gagnrýninni á bug.

„Ég er inn á því að gera málamiðlanir og reyna að taka hlutina í smærri skrefum ef að það er möguleiki. Hins vegar hefur verið mjög mikið óþol gagnvart nokkurskonar málamiðlunum og það hefur gert mér erfiðara fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert