Þarf að undirgangast viðurkennd hagfræðilögmál

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristófer Liljar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur vel unnt að ná farsælum og góðum samningum á vinnumarkaði í haust, sem verji fengna kaupmáttaraukningu. Hins vegar sé óraunhæft að vænta svo mikillar aukningar kaupmáttar á hverju ári um alla framtíð.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.

„Við erum með ágæta stöðu í alþjóðlegum samanburði og það eru forsendur til þess að verja þennan kaupmátt ef við látum ekki blekkjast af því að nafnlaunahækkun geti ein og sér fleytt okkur yfir verðbólguna,“ segir Bjarni í löngu og ýtarlegu viðtali við Dagmál Morgunblaðsins, sem birt er í dag og er opið öllum áskrifendum. Þar er farið yfir stöðu efnahagsmála og stjórnmálahorfur í víðu samhengi.

Ósanngjörn gagnrýni á Seðlabanka

„Það er ekki hægt að flýja verðbólguna og Seðlabankinn mun ekki lækka vexti, bara af því að það er hrópað svo hátt að honum,“ segir Bjarni og beinir orðum sínum að verkalýðsleiðtogum, sem atyrt hafa bæði Seðlabankann og hagfræðinga á vegum Þjóðhagsráðs fyrir skoðanir á forsendum komandi kjarasamninga.

„Við þurfum að undirgangast viðurkennd lögmál hagfræðinnar og þessi viðleitni, sem var unnin á vegum Þjóðhagsráðs, til þess að kortleggja stöðuna og komast að niðurstöðu um það hversu mikið svigrúmið [fyrir samninga] væri, hún var mjög virðingarverð. Það verður að vera hægt að leggja fram staðreyndir án þess að það sé hrópað að það endi allt í tætaranum.“

Fjármálaráðherra ítrekar að það sé aðila vinnumarkaðarins að semja sín í milli, en hið opinbera eigi þar óbeina aðkomu og vilji reyna að tryggja að menn horfi á hlutina sömu augum, staðreyndir og nauðsynlegir útreikningar liggi fyrir. Stjórnvöld vilji hlusta á vinnumarkaðinn og leggja sín spil á borðið, einmitt til að auka traust.

„Mér finnast þessi hróp og köll að seðlabankastjóra eða öðrum, sem hafa verið að semja skýrslur fyrir stjórnvöld, vera gríðarlega óverðskulduð,“ segir Bjarni.

„Þegar seðlabankastjóri segir að ef samið verði um meira en svigrúm er fyrir í hagkerfinu, þá geti það leitt til vaxtahækkana, þá gæti það hafa komið frá hvaða seðlabankastjóra sem er í heiminum. Þetta eru bara almenn sannindi og menn ættu ekki þurfa að rífast um þetta.“

Meira í Morgunblaðinu í dag og í Dagmálum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert