„Dapurlegt að meina krökkum dýrmætan lærdóm“

Sævar segir börn geta lært mikið af því að sjá …
Sævar segir börn geta lært mikið af því að sjá eldgosið með berum augum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og kennari, segist ósáttur við þá ákvörðun lögreglunnar að meina börnum yngri en 12 ára aðgang að gosastöðvunum í Meradölum.

„Mér finnst bara rosalegt af yfirvöldum að taka einn hóp frá því að geta farið að sjá jafn stórkostlegt fyrirbæri náttúrunnar og eldgosið er,“ segir Sævar í samtali við mbl.is. 

„Það er enginn að banna mér að fara með 11 ára dreng í göngutúr um Fimmvörðuháls eða upp á jökul, þar sem fólk hefur dáið þegar veður skyndilega breytist, hvers vegna gildir það hjá gosstöðvunum?“

Hann segir reglugerðina óskýra og spyr hvort börn yngri en 12 ára megi bara alls ekki fara að svæðinu: „Gæti ég farið með átta ára barn í þyrlu yfir svæðið eða er bara allt aðgengi bannað?“

Umboðsmaður Alþingis hef­ur óskað eft­ir upp­lýs­ing­um og skýr­ing­um frá lög­reglu­stjór­an­um á Suður­nesj­um vegna ákvörðunarinnar.  

Börn geti lært mikið á gosstöðvunum

Sævar segir fyrst og fremst skipta máli að allir geti skoðað íslenska náttúru og það feli meðal annars í sér að geta gengið um gosstöðvarnar í Meradölum. 

„Það er ótrúlega dapurlegt að meina krökkum þennan óendanlega dýrmæta lærdóm að sjá náttúruöflin í öllu sínu veldi þar sem við færumst sífellt fjær náttúrunni, en þegar hún kallar, þá reynum við að hindra fólk í að upplifa hana.“

Þá segir hann að draga megi þann lærdóm af gosinu í fyrra að börn séu oftar en ekki betur í stakk búin fyrir íslenska náttúru en margt fullorðið fólk. 

„Foreldrar eiga bara að sýna næga fyrirhyggju að ana ekki út í göngu ef veður er ekki nógu gott, síðan er það lykilregla í náttúrugöngum, að ef maður er þreyttur, þá er engin skömm í því að snúa bara við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert