Gosstöðvarnar áfram opnar almenningi

Spáð er suðvestan vindátt á gosstöðvunum.
Spáð er suðvestan vindátt á gosstöðvunum. mbl.is/Hákon

Gosstöðvarnar í Meradölum eru opnar í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. 

Spáð er suðvestan vindátt á gosstöðvunum með 5-10 m/s og stöku skúrir. Þá berst gasmengun til norðausturs í átt að höfuðborgasvæðinu. 

Í kvöld gæti orðið vart við gasmengun á Vatnsleysuströnd og er spáð suðaustan vindátt með 8-15 m/s ásamt rigningu. 

Á morgun verði suðvestan og vestan vindur með 3-8 m/s og að auki smá skúrir. Gasmengun berst til austurs og norðausturs og gæti orðið vart í Ölfusi og á höfuðborgarsvæðinu.

Huga skal að hættu

Veðurstofan segir í tilkynningu að huga skuli að hættu þegar farið er að gosstöðvunum. 

Gasmengun við gosstöðvarnar geti alltaf farið yfir hættumörk, mengunin leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgossins með vindinn í bakið.

Í hægviðri geti gas safnast fyrir í lægðum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.

Börnum yngri en 12 ára vísað frá 

Foreldrum með börn yngri en 12 ára verði snúið frá leið A af öryggisástæðum að svo stöddu. 

Þá sé ekki ráðlegt að börn dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum, en viðbragðsaðilar fylgjast með umferð við upphaf gönguleiðar A að gosinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert