Netárás og hótun um að loka vef Fréttablaðsins

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins og bréf frá rúss­neska sendi­ráðinu …
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins og bréf frá rúss­neska sendi­ráðinu til Frétta­blaðsins þar sem kraf­ist er af­sök­un­arbeiðni á mynd­birt­ingu blaðsins. Samsett mynd

Netárás hófst klukkan 9 í morgun á vef Fréttablaðsins, frettabladid.is, í kjölfar myndbirtingar blaðsins í viðtali við Val Gunnarsson. Þar mátti sjá einstakling stíga á rússneska fánann.

Þetta segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, í samtali við mbl.is.

Umferð um eldvegginn hjá Fréttablaðinu tólffaldaðist miðað við venjulega umferð milli klukkan 8 og 9 í morgun, og hefur hýsingaraðili virkjað sérstakar öryggisreglur vegna árásinnar. Með þessum auknu öryggisreglum kemst aðeins lítið brot af umferð inn á vefþjónana sjálfa, sem eru öruggir eins og er.

„Ég er búinn að starfa í fjölmiðlum í yfir fjörutíu ár og ég man aldrei eftir álíka atviki,“ segir Sigmundur.

Rússneska sendiráðið sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem þessari myndbirtingu blaðsins var mótmælt. Sendiráðið sendi einnig bréfpóst á Fréttablaðið sem barst í morgun þar sem blaðið var enn og aftur krafið um afsökunarbeiðni.

Netárásin barst víða að, væntanlega að uppruna frá Rússlandi að sögn Sigmundar.

Rússneska sendiráðið.
Rússneska sendiráðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hótað að loka vefnum klukkan níu

„Síðan hefur okkur borist hótun í ritstjórnarpósti okkar um að vefnum yrði lokað klukkan tólf að Moskvutíma, sem er klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma, ef við erum ekki búin að biðjast opinberlegrar afsökunar á því að hafa birt mynd af fótum troðnum rússneskum fána.“

„Við lítum á þetta sem alvarlega árás á frjálsa fjölmiðlun á Íslandi.“

Málið hefur verið kært til lögreglu sem og tilkynnt til utanríkisráðuneytisins sem að sögn Sigmundar hefur heitið fullum stuðningi.

„Þeir hafa undir höndum bæði kæruna og bréf rússneska sendiráðsins frá því í morgun. Sem frjálst land verðum við að standa í lappirnar og hrinda svona hótunum frá okkur.“

Bréf frá rússneska sendiráðinu til Fréttablaðsins þar sem krafist er …
Bréf frá rússneska sendiráðinu til Fréttablaðsins þar sem krafist er afsökunar á myndbirtingu blaðsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina