Þrjú vilja dómaraembætti við MDE

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Ljós­mynd/​ECHR

Þrjár umsóknir bárust um embætti íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu (MDE). Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari sækist eftir embættinu líkt og hún gerði fyrr í sumar. Í umsækjendahópinn bætast þó Dóra Guðmundsdóttir lögfræðingur og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Hefja þurfti umsóknarferlið upp á nýtt undir lok júní þar sem tveir af þremur umsækjendum um embættið, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði tilnefnt, ákváðu að draga umsóknir sínar til baka. Það voru hæstaréttarlögmennirnir Jónas Þór Guðmundsson og Stefán Geir Þórisson. Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu, sagði í viðtali við mbl.is í júní að sennilegt væri að vafi hafi leikið á um styrkleika umsækjendanna og því hafi þeir dregið umsókn sína til baka.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við mbl.is í kjölfar þessa að það hefði komið henni á óvart að einungis þrír hafi sótt um stöðuna í vetur.

Sérstök hæfisnefnd, skipuð á Íslandi og leidd af Ragnhildi Helgadóttur, mat hæfi umsækjenda áður en forsætisráðherra tilnefndi þá en ráðherrann sagði þá hafa uppfyllt öll formskilyrði.

Einn dómari frá hverju samningsríkja

Kjörtímabil íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu rennur út hinn 31. október 2022. Evrópuráðið fór því þess á leit að tilnefnd yrðu af Íslands hálfu þrjú dómaraefni en skv. 22. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. lög nr. 62/1994, eru dómarar við Mannréttindadómstólinn kjörnir af þingi Evrópuráðsins af lista með þremur mönnum sem samningsaðili tilnefnir. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðs Íslands á vef þess 22. júní í sumar. Enn fremur segir þar:

„Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðauk­um við hann. Dómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju samningsríkja.“

„...svo orð fari af“

Sagði svo á vef Stjórnarráðsins af hæfisskilyrðum dómara er fjallað er um í 21. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Greinir þar svo frá:

„Kemur þar fram að dómarar skuli vera grandvarir og verði annaðhvort að fullnægja kröfum um hæfi til að gegna æðri dómarastörfum eða vera lögvísir svo orð fari af. Þeir skuli skipa sæti sitt sem einstaklingar og meðan kjörtímabil þeirra varir skuli þeir ekki taka þátt í neinni starfsemi sem sé ósamrýmanleg sjálfstæði þeirra, hlutleysi eða kröfum sem gerðar eru til fulls dómarastarfs.“ 

Vekur Stjórnarráðið enn fremur athygli á því að dómstóllinn geri þá kröfu að dómari hafi gott vald bæði skriflega og munnlega á öðru tveggja opinberra tungumála réttarins, þ.e. ensku og frönsku, og nokkurn skilning á hinu. „Dómstóllinn leggur áherslu á að á listanum séu ekki aðeins dómaraefni af einu kyni.“

Hælisnefnd metur umsóknir

Býður Stjórnarráðið því næst þeim sem áhuga hafa á að hljóta tilnefningu af Íslands hálfu sem dómaraefni við mannréttindadómstólinn að senda forsætisráðuneytinu umsókn sína eigi síðar en 8. ágúst 2022. 

Fimm manna hæfisnefnd muni meta umsóknir sem berast. Muni hæfisnefndin skila umsögn um umsækjendur og gera rökstudda tillögu um hver þeirra teljist hæfust til að vera tilnefnd. Tilnefningar stjórnvalda verða byggðar á þessari tillögu.

mbl.is