Breyta koltvíoxíð í stein með nýtingu sjávar

CO2 á leið til Íslands.
CO2 á leið til Íslands. Ljósmynd/Carbfix

„Koltvíoxíð er blandað í vatn sem dælt er ofan í jörðina og þar gengur það í efnasamband við málma og verður að bergi,“ segir Ólafur Teitur Guðmundsson, samskiptastjóri Carbfix, um byltingakenndar aðferðir fyrirtækisins við að minnka losun CO2 út í andrúmsloftið.

Þessi aðferð Carbfix við að taka koltvíoxíð, blanda það í vatn og breyta í stein hefur hingað til aðeins verð nýtt með ferskvatni en fyrirtækið greindi frá því í dag að það myndi á næstunni hefja tilraunir með að nota sjó til að steinrenna CO2 í berglögum neðanjarðar.

Borholan sem notuð verður í þessu skyni verður í Helguvík í Reykjanesbæ.

„Þetta hefur verið verkefni hjá okkur lengi og niðurstöður sem hafa fengist á rannsóknarstofum Háskóla Íslands hafa sýnt það að þetta eigi að ganga upp. Nú er tími kominn til að reyna á þetta í raunveruleikanum með niðurdælingaholu í Helguvík sem verður tilbúin í haust,“ bætir Ólafur við.

Myndi auka möguleika tækninnar víðar í heiminum

Ólafur segir að möguleikar þessarar tækni við að binda koltvíoxíð og breyta í stein muni aukast víðar með nýtingu sjávar þar sem aðgangur að ferskvatni sé sums staðar takmarkandi þáttur.

Eins og kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins hefur Carbfix frá árinu 2012, fangað CO2 frá Hellisheiðarvirkjun, blandað það ferskvatni og dælt ofan í basaltberglög þar sem það umbreytist í stein með náttúrulegum efnahvörfum. Hefur þessi aðferð til varanlegrar og öruggrar förgunar á CO2 vakið heimsathygli. „Þetta gerist sjálfkrafa úti í náttúrunni en það sem við gerum hjá Carbfix er að flýta fyrir ferlinu,“ útskýrir Ólafur.

Hann segir þá að það dugi ekki eitt og sér að draga úr losun CO2 í andrúmsloftið heldur þarf einnig að geta losað það úr andrúmsloftinu og að ekki megi slaka á neinum vígstöðum til að ná loftslagsmarkmiðum.

„Það er alveg ljóst að þessi aðferð kemur ekki staðinn fyrir að draga úr losun efna sem hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Vandinn við að ná loftslagsmarkmiðum er svo stór að það nægir ekki eitt og sér að draga úr losun heldur þarf líka að losa okkur við koltvíoxíð úr andrúmsloftinu,“ bætir Ólafur við að lokum.

mbl.is