Reynir er ónefndi velgjörðarmaðurinn

Reynir Finndal Grétarsson er maðurinn sem greiddi upp yfirdrátt Samtakanna …
Reynir Finndal Grétarsson er maðurinn sem greiddi upp yfirdrátt Samtakanna '78. mbl.is/Unnur Karen

„Ég sagði þeim að nafnið mitt þyrfti ekki að koma fram og fór bara að fá skilaboð allt í einu, hrós frá fólki. Við tókum samt mynd og ég sagði við samtökin að þau mættu kynna þetta eins og þeim þætti best,“ segir Reynir Finndal Grétarsson í samtali við mbl.is.

Reynir er áður ónefndi velgjörðamaðurinn sem greiddi allan yfirdrátt Samtakanna '78 í vikunni, en framlagið hljóðaði upp á fimm milljónir króna. Reynir segir að sér hafi blöskrað að samtökin væru rekin á yfirdráttarláni og það bakslag sem orðið hefur í baráttu hinsegin fólks.

„Einhverjir hafa orðið fyrir árásum, jafnvel ofbeldi, vegna kynhneigðar og svo sá ég til dæmis að einhverjir hefðu skorið niður regnbogafána. Ég sá að þau voru að reka sig á yfirdrætti, og mér finnst að þau eigi ekki að þurfa að eyða peningum sínum í yfirdráttarvexti og ákvað að gefa þeim þennan pening.“

Fyrirtæki sem flagga ættu að styrkja

„Ef það er eitthvað bakslag eða einhverjir sem gera sér ekki grein fyrir því að svona fordómar eru ekki léttvægir, þeir geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólk, að þá þarf vitundarvakningu í samfélaginu. Ágæt leið til þess að hreyfa við því er að styðja við þetta fólk í verki.“

Að mati Reynis ættu fyrirtæki sem flagga regnbogafánanum að styrkja samtökin.

„Ég veit að það eru voðalega mörg fyrirtæki sem flagga fánanum þeirra, en mér finnst að þau eigi líka að styðja þau í verki. Það væri gaman að sjá fyrirtækin sem flögguðu regnbogafánanum senda eitthvað til þeirra,“ segir Reynir og á þá við framlög til samtakanna.

mbl.is