Segir aspir felldar í heimildarleysi

Sturla segist munu kæra starfsmann hjá Landsneti.
Sturla segist munu kæra starfsmann hjá Landsneti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sturla Jónsson segist ósáttur með vinnubrögð Landsnets þegar tekin var ákvörðun um að saga niður aspir á landi í hans eigu í Hveragerði í gær.

„Þeir segja að þetta ógni línunum hjá þeim, en það breytir því ekki að það þarf úrskurð til þess að fjarlægja hluti fólks, rétt eins og að fara inn á heimili þeirra. Þeir hafa ekki fengið úrskurð hjá dómara, en þeir trúa því að fólk út í bæ hafi með það að gera að úrskurða um eignaréttinn þinn, að það þurfi ekki dómstól til þess að taka hann af þér.“

Að sögn Sturlu hafði Landsnet óskað eftir leyfi hjá Orkustofnun til þess að saga niður aspirnar. „Þeir fara inn á landið í heimildarleysi, Orkustofnun hefur enga heimild til að veita mönnum aðgang að landi hjá fólki.“

Sturla var staddur í Reykjavík þegar aspirnar voru felldar og fékk símtal frá manni sem sá verknaðinn eiga sér stað.

Sturla hringdi í lögreglu sem kom á staðinn og tók …
Sturla hringdi í lögreglu sem kom á staðinn og tók skýrslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hyggst leggja fram kæru

Sturla hringdi í lögreglu sem kom á staðinn og tók skýrslu og myndir af trjánum. Sturla segist munu kæra starfsmann hjá Landsneti, sem felldi aspirnar.

„Það er ekki hægt að ganga bara og eyðileggja eigur fólks og trén liggja þarna eins og hráviði, kostnaðurinn á mig og skemmdirnar á trjánum og þetta voru stór tré.“

Sturla tekur fram að málið snúist ekki alfarið um aspirnar, heldur um hvernig var farið að.

„Ef þau hefðu farið rétta leið í þessu, ef Landsnet hefði óskað aðstoðar hjá Orkustofnun og sagt að það væri engin leið að semja um þetta, þannig að þeir þyrftu dóm til þess að geta farið inn á landið og tekið trén. En þarna er það allt saman hunsað og trén eru bara felld.“

Sturla var staddur í Reykjavík þegar aspirnar voru felldar.
Sturla var staddur í Reykjavík þegar aspirnar voru felldar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is