Tekur stundum bara upp símann

Skúli Magnússon á fundi í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem þriðji …
Skúli Magnússon á fundi í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem þriðji orkupakkinn var til umræðu á sínum tíma. mbl.is/Eggert

„Málið snýst í hnotskurn um hvaða aðferðir eru málefnalegar við rannsókn eða könnun umsækjenda um opinbert starf og spurningin um hvað telst málefnalegt getur ráðist af þeim lögum sem Alþingi hefur sett á hverjum tíma.“

Þetta segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, í samtali við mbl.is spurður út í álit stofnunarinnar um persónuleikapróf á ensku sem lagt var fyrir umsækjendur um starf varðstjóra hjá lögreglustjóranum á Austurlandi. Segir þar meðal annars:

„Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls kemur fram að íslenska sé opinbert mál stjórnvalda. Þótt með því sé síður en svo girt fyrir að opinberir starfsmenn þurfi að kunna erlend mál háttaði svo til að persónuleikapróf á ensku hefði að einhverju leyti reynt á sérhæfðan orðaforða erlends tungumáls en það fól í sér meiri kröfur til tungumálakunnáttu en auglýsing um starfið hafði gert ráð fyrir. Slík óbein krafa til umsækjanda var því einfaldlega ekki í málefnalegum tengslum við hæfniskröfur.“

Kröfur íslenskra laga standa óhaggaðar

Segir Skúli að í þessu tiltekna máli hafi starfið og þær kröfur sem gerðar voru til umsækjenda að þessu leyti þar af leiðandi ekki verið talið þess eðlis að hægt væri að víkja frá þeirri almennu reglu að íslenska ætti að vera tungumál íslenskra stjórnvalda.

„Forsendur álitsins útiloka ekki að í einhverjum tilvikum kunni að vera hægt að leggja einhvers konar próf á ensku fyrir fólk, eða prófa enskukunnáttu með sérstökum hætti. Hér var hins vegar um að ræða starf þar sem einungis almennrar enskukunnáttu er krafist,“ segir umboðsmaður.

„Menn verða einnig að gera sér grein fyrir því kröfur íslenskra laga standa óhaggaðar þótt mannauðsfræðingar sem aðstoða stjórnvöld telji óframkvæmanlegt að leggja stöðluð erlend próf fyrir umsækjendur á íslensku. Við þær aðstæður verður einfaldlega að leita annarra leiða sem eru í samræmi við lög og þjóna sambærilegu markmiði,“ útskýrir Skúli.

Málum umboðsmanns fjölgar

„Ég bendi þó á að þessi tiltekni annmarki var ekki talinn til þess fallinn að hafa þýðingu fyrir efnislega niðurstöðu málsins, umboðsmaður gerir ekki kröfu um að hlutur viðkomandi sé réttur. Ástæðan fyrir því að umboðsmaður setur þetta í búning álits er þar af leiðandi að þetta stjórnvald og önnur hafi þessi sjónarmið í huga í framtíðinni,“ heldur hann áfram.

Úr því Skúli er á línunni er hann spurður út í málafjölda og fleira hjá umboðsmanni Alþingis sem fyrst var stofnað til með lögum árið 1987 og Gaukur Jörundsson steig þar inn sem fyrsti umboðsmaður. Síðan hefur margt vatn runnið til sjávar.

„Almennt má segja um stöðu embættisins að málum hafi fjölgað síðustu ár, nú stefnir í að fjöldi kvartana verði 600 á þessu ári sem svarar til sambærilegrar fjölgunar á síðustu árum,“ svarar Skúli, málum hafi fjölgað um 30 á ári en við kvartanir bætist mál sem umboðsmaður tekur upp að eigin frumkvæði auk sérstaks eftirlits með aðbúnaði frelsissviptra.

Pyntingasáttmála framfylgt á Íslandi

„Svo erum við með þetta svokallaða OPCAT-eftirlit, Optional Protocol for Convention Against Torture, sem er sérstaklega vegna geðheilbrigðismála,“ segir Skúli og er þar um að ræða pyntingasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Er slíks sáttmála virkilega þörf á Íslandi?

„Já, reyndar er það svo. Samkvæmt þessum valkvæða viðauka svokallaða þar, „optional protocol“, skuldbinda ríkin sig til að fylgjast kerfisbundið með afkomu frelsissvipts fólk,“ svarar umboðsmaður. Í huga flestra sé frelsissvipt fólk fyrst og fremst fangar og fólk í haldi lögreglu. „En undir þetta fellur líka fólk sem er nauðungarvistað á geðdeildum og í ýmsum úrræðum stjórnvalda. Undir þetta falla líka heimili fyrir börn og hjúkrunarheimili og staðir þar sem fólk er í reynd frelsissvipt þótt það sé það kannski ekki formlega,“ segir Skúli og hafi því reynst full ástæða til að fylgjast með á þessum vettvangi.

En fara þá íslensk stjórnvöld almennt eftir álitum umboðsmanns Alþingis?

„Það heyrir til algjörra undantekninga að stjórnvöld bregðist ekki við álitum umboðsmanns, að vissu leyti má segja að í reynd séu þau bindandi fyrir stjórnsýsluna,“ svarar umboðsmaður og nefnir að í ársskýrslu umboðsmanns hvert ár sé farið yfir hvort stjórnvöld hafi farið að álitum. „Það er í raun teljandi á fingrum annarrar handar hvenær það gerist. Umboðsmaður getur mælt með því að fólki verði veitt gjafsókn [í dómsmálum] hafi það gerst að stjórnvald fari ekki að áliti og á þessu ári hefur komið upp eitt mál þar sem stjórnvöld hafa þráast við. Þetta eru mjög fá mál,“ segir Skúli.

Bréfið sem fæstir vilja fá

Þá ljúki fjölda mála ekki með áliti þar sem stjórnvald bregðist við á fyrstu stigum málsins. „Þetta getur jafnvel verið þannig að ég taki bara upp símann og spyrji „jæja, hvað er að gerast með þetta mál?“ og þá er jafnan brugðist við því án þess að sent sé út bréf. Við þurfum ekki alltaf að senda út bréf og fréttatilkynningu. Núna rétt í þessu átti ég samtal við forstöðumann ríkisstofnunar og hún ætlaði bara að kanna það mál betur. „Þú getur alveg fengið bréf ef þú vilt,“ sagði ég, en það er ekki eitthvað sem fólk er hrifið af, að fá bréf með þessum haus umboðsmanns Alþingis. Sé hægt að koma málum á betri veg án aðgerða er sjálfsagt að gera það,“ segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, að lokum í samtali við mbl.is.

Álit umboðsmanns í því máli sem hér er til umfjöllunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert